| Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið |
Jarðskjálftar 20210830 - 20210905, vika 35

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér
Sérkort af
Lýsing á skjálftavirkni vikunnar
Um 340 jarðskjálftar mældust með SIL-mælakerfi Veðurstofunnar í vikunni, talsvert fleiri en í fyrri viku þegar þeir voru 250. Mesta virknin var úti fyrir Norðurlandi og þar varð stærsti skjálfti vikunnar, 3,3 að stærð. Virknin á Reykjanesi var heldur meiri en í fyrri viku en rólegt við gosstöðvarnar.
Suðurland
Um 20 skjálftar voru á Suðurlandi og á Hengilssvæðinu í vikunni, svipaður fjöldi og í síðustu viku. Um kvöldmatarleytið 30. ágúst urðu fimm jarðskjálftar skammt austur af Ingólfsfjalli. Stærsti skjálftinn og jafnframt sá fyrsti var 1,6 að stærð og barst ein tilkynning úr Öndverðarnesi um að hann hafði fundist þar. Stakur skjálfti var við Heklu 1. september, 1,8 að stærð.
Reykjanesskagi
Um 80 skjálftar mældust á Reykjanesskaganum, heldur fleiri en í fyrri viku þegar þeir voru tæplega 50. Um 30 skjálftar urðu vestast á skaganum, þar af helmingurinn á og úti fyrir Reykjanestá. Stærsti skjálftinn var 2,4 að stærð (4. sept. kl. 01:24). Tæpur tugur skjálfta mældist skammt austur af Grindavík, stærsti þann 5. september kl. 17:37, 2,1 að stærð. Annar eins fjöldi mældist í nágrenni Krýsuvíkur, allir um og innan við eitt stig. Nokkrir litlir skjálftar urðu við Brennisteinsfjöll. Rólegt var við gosstöðvarnar.
Nokkrir skjálftar voru á Reykjaneshrygg.
Norðurland
Á og úti fyrir Norðurlandi mældust ríflega 90 skjálftar, litlu færri en í fyrri viku þegar þeir voru um 70. Um 20 voru staðsettir í smáhrinu sem varð 30. ágúst skammt norðaustur af Grímsey. Stærsti skjálftinn varð þann dag kl. 16:56, 3,3 að stærð og var það jafnframt stærsti skjálfti vikunnar. Skömmu síðar varð annar skjálfti á sömu slóðum 3,2 að stærð, aðrir voru mun minni. Rúmlega 20 skjálftar urðu í Öxarfirði og svipaður fjöldi úti fyrir Eyjafirði. Síðla kvölds 3. september hófst smáskjálftahrina skammt vestur af Húsavík með um 20 mældum skjálftum. Hrinan stóð yfir í um hálftíma. Engar tilkynningar bárust um að skjálftarnir hefðu fundist á Húsavík. Nokkrir skjálftar voru við Kröflu og Þeistareyki.
Hálendið
Um 30 skjálftar mældust undir Vatnajökli. Rólegt var við Bárðarbungu líkt og í síðustu viku. Alls urðu þar þrír skjálftar, allir innan við tvö stig. Um 10 smáskjálftar urðu suður af Vestari Skaftárkatli 30. og 31. ágúst, líklega í tengslum við hlaup úr katlinum. Tveir skjálftar urðu við Grímsfjall. Tæplega 10 skjálftar urðu við Esjufjöll, flestir 3. september, stærsti tvö stig. Nokkrir smáskjálftar urðu í Skeiðarárjökli.
Rúmlega 40 skjálftar urðu við Öskju, allir innan við tvö stig og nokkrir smáskjálftar á svæðinu við Herðubreið og Herðubreiðartögl.
Stakur skjálfti varð í sunnanverðum Langjökli, 1,8 að stærð. Tveir skjálftar urðu vestan við Langavatn, báðir um tvö stig.
Mýrdalsjökull
Rúmlega 20 skjálftar urðu í Mýrdalsjökli, mun fleiri en í fyrri viku þegar þeir voru þrír. Flestir skjálftarnir urðu í austanverðri öskjunni. Stærsti skjálftinn var 2. september kl. 05:26, 2,9 að stærð, við sigketil nr. 11. Fáeinir smáskjálftar voru á Torfajökulssvæðinu.
Jarðvakt