| Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið |
Jarðskjálftar 20211011 - 20211017, vika 41
PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér
Sérkort af |
Lýsing á skjálftavirkni vikunnar
Rúmlega 1600 jarðskjálftar mældust í liðinni viku með SIL-jarðskjálftamælakerfi Veðurstofu Íslands. Það eru talsvert færri skjálftar en mældust í síðustu viku þegar um 5600 skjálftar mældust. Jarðskjálftahrina sem hófst SSV af Keili þann 27. september og eru flestir skjálftar vikunnar hluti af þeirri hrinu. Einnig voru tvær aðrar hrinur virkar á Reykjanesi í vikunni, sú fyrri var smáskjálftahrina að morgni 12. okt nærri Eldvörpum og sú seinni 12. og 13. október rétt úti fyrir Reykjanestá. Hrinan við Keili hefur hjaðnað mikið frá því sem mest var og var töluvert rólegra yfir í lok vikunnar en í upphafi hennar. Stærstu skjálftar vikunnar voru tveir og mældist 3,2 að stærð og urðu skömmu fyrir miðnætti þann 12. október rúma 6 km SV af Reykjanestá. Síðar sömu nótt, kl 02:23 þann 13. okt., varð skjálfti af stærð 3,0 rétt rúmann kílómeter SV af Keili. Voru þetta allir skjálftar sem mældust yfir 3,0 í vikunni. Veðurstofunni barst ein tilkynning um að skjálftans við Keili hafi orðið vart.
Búið er að fara handvirkt yfir 900 skjálfta af þeim 1600 sem mældust og því er rétt að taka fram að eftir á að fara yfir tæpan helming og eru því ekki teknir fram í þessu vikuyfirliti en gætu komið inn síðar. Óyfirfarnir skjálftar eru smærri skjálftar í hrinunni SSV við Keili og hrinunni við Eldvörp, en allir skjálftar á öðrum svæðum hafa verið yfirfarnir.
Suðurland
Tíu jarðskjálftar mældust á Hengilssvæðinu og Hellisheiði í vikunni, þar af sex skjálftar rétt vestur af Ölkelduháls. Alls mældust 20 skjálftar á Suðurlandsbroatabeltinu. Þar taldir eru þrír skjálftar mældust í nágrenni við Raufarhólshelli og aðrir þrír í Ölfusi við árósa Ölfusár. Aðrir skjálftar voru flestir dreifðir um Skeiðar og Holt auk 6 skjálfta í sunnan- og suðvestanverðum Hekluhraunum.
Reykjanesskagi
Ríflega 1100 skjálftar mældust í hrinu SV af Keili sem staðið hefur frá 27. September. Þeim fór jafnt og þétt fækkandi í vikunni og má segja að í lok vikunnar hafi hrinunni verið svo gott sem lokið að mestu leiti. Hrinan hefur verið túlkuð sem mögulegt lítið kvikuinnskot á meira en 5km dýpi og er sú túlkun gerð í samræmi við GPS aflögunargögn sem sýna litla aflögun sem geti passað við þesskonar innskot. Af þessum 1100 skjálftum hafa rúmlega 600 skjálftar verið staðsettir. Af annarri markverðri virkni á skaganum má nefna smáskjálftahrinu við Eldvörp árla dags þann 12. okt. Sem telur um 100 skjálfta, nokkra smáskjálfta við Reykjanesvirkjun og smáskjálfta á víð og dreif víðsvegar milli Trölladyngju og Gullbringu. 37 skjálftar mældust í hrinu úti fyrir Reykjanestá aðfaranótt 13. október og voru þar mældir stærstu skjálftar vikunnar, tveir 3,2 að stærð.
Norðurland
Á Tjörnesbrotabeltinu mældust 35 jarðskjálftar. Stærsti skjálftinn á því svæði var af stærð 1,8 tæpa 20 km austur af Grímsey. Virknin á Tjörnesbrotabeltinu var nokkuð jafndreifð í vikunni. Þrír skjálftar mældust á Kröflusvæðinu og einn við Þeistareyki.
Hálendið
Undir Vatnajökli mældust 13 jarðskjálftar í síðustu viku litlu færri en í síðustu viku. Þar af voru fimm skjálftar í Grímsvötnum, sá stærsti af stærð 1,6. Einn skjálfti var skammt norðan við Eystri Skaftárketil og annar í Bárðarbunguöskjunni. Skammt austan við hana voru fjórir djúpir skjálftar og í Dyngjujökli voru tveir skjálftar.
Í Öskju mældust 35 skjálftar í síðustu viku, um helmingi fleiri en í vikunni þar á undan. Allir skjálftarnir voru um eða undir 1,0 að stærð. Flestir skjálftarnir voru staðsettir við austanvert Öskjuvatn en dreifing annarra skjálfta var nokkur um svæðið.
Um 50 skjálftar mældust á svæðinu í kringum Herðubreið og Herðubreiðartögl sem er aðeins meira en í síðustu viku. Flestir skjálftarnir eru bundir við tvö afmörkuð svæði við Herðubreiðartögl.
Fimm skjálftar mældust milli Hvammsfjalla og Herðubreiðarfjalla. Stærstur þeirra var skjálfti af stærð 2,6.
Einn skjálfti var í Geitlandsjökli í sunnanverðum Langjökli og einn skjálfti var rétt NA við Hofsjökul.
Mýrdalsjökull
Í Mýrdalsjökli mældust þrír skjálftar. Sá stærsti var 1,5 að stærð við Goðabungu. Þrír skjálftar voru á Torfajökulssvæðinu.
Jarðvakt