| Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið |
Jarðskjálftar 20220502 - 20220508, vika 18
PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér
Sérkort af |
Lýsing á skjálftavirkni vikunnar
Um 2200 skjálftar voru staðsettir í vikunni með SIL-mælakerfi Veðurstofu Íslands. Af þessum 2200 skjálftum hafa um 850 verið yfirfarnir. Mesta virknin var á Reykjanesskaga og var hún dreifð um skagann. Áberandi hrinur eru við Reykjanesvirkjun, Eldvörp, Sundhnjúkagíga, Hagafell austan Þorbjörns og Kleifarvatn. Þrír skjálftar yfir 3 mældust við Kleifarvatn, einn rétt eftir miðnætti fimmtudaginn 5. maí og tveir laugardaginn 7. maí. Skjálftarnir þrír fundust á höfuðborgarsvæðinu. Utan Reykjanesskagans mældust skjálftar m.a. í Bárðarbungu, Langjökli og í Öxarfirði. Tveir smáir skjálftar mældust við Heklu.
Suðurland
Rúmlega 50 skjálftar mældust á Suðurlandi í síðustu viku. Flestir voru á Suðurlandsbrotabeltinu og var stærsti skjálftinn 2,8 að stærð fimmtudaginn 5. maí við Rangárvelli. Fjórir skjálftar mældust við Vatnafjöll og tveir smáir skjálftar mældust við Heklu.
Reykjanesskagi
Yfir 1800 skjálftar mældust á Reykjanesskaga í síðustu viku. Mest var virknin í tveimur litlum hrinum austan við Þorbjörn, við Sundhnjúkagíga og Hagafell, og við Kleifarvatn. Þrír skjálftar yfir stærð 3 mældust í hrinunni við Kleifarvatn, einn rétt eftir miðnætti fimmtudaginn 5. maí og tveir laugardaginn 7. maí. Skjálftarnir fundust á höfuðborgarsvæðinu. Önnur virkni á Reykjanesskaga var við Reykjanesvirkjun, Eldvörp, vestan við Borgarfjall og norðaustan við Fagradalsfjall.
Úti á Reykjaneshrygg mældust um 10 skjálftar.
Vesturland
Við Langjökul mældust 7 skjálftar, þar af einn norðaustan við jökulinn þar sem hefur verið talsverð virkni undanfarnar vikur. 6 skjálftar mældust vestan við Okið, á svipuðum slóðum og mældist virkni í janúar og febrúar á þessu ári.
Norðurland
Við Kröflu mældust 13 skjálftar, 2 við Bæjarfjall og 8 skjálftar SV af Ásbyrgi.
Um 150 skjálftar mældust á Tjörnesbrotabeltinu, bæði á Grímseyjarbeltinu og Húsavíkur-Flateyjarmisgenginu. Flestir skjálftanna, um 100 talsins, áttu sér stað í Öxarfirði en þrjár minni hrinur urðu við Grímsey, á Skjálfanda og við minni Eyjafjarðar.
Hálendið
Í Vatnajökli mældust tæplega 70 skjálftar. Langflestir voru í Bárðarbungu, 29 talsins, og 7 skjálftar mældust á djúpa svæðinu. Einn skjálfti mældist í Kverkfjöllum, þrír við Skaftárkatla, 9 við Grímsfjall, 5 við Háubungu, 3 í Öræfajökli og 3 skjálftar fyrir ofan Breiðamerkurjökul.
Við Öskju mældust 7 skjálftar og um 10 skjálftar við Herðubreið og Herðubreiðartögl.
Mýrdalsjökull og Torfajökulssvæðið
Fjórir skjálftar mældust í og við Kötluöskjuna í vikunni og einn á Torfajökulsvæðinu sem var 2,5 að stærð.
Nánar er hægt að skoða skjálftavirkni á landinu í Skjálfta-Lísu
Jarðvakt