Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið


Frá vaktmanni jarðeðlissviðs Veðurstofu Íslands vikuna 12.-18. júlí 1999

Á miðvikudeginum, 14. júlí, fann ferðafólk sterka "gas" lykt úr Múlakvísl (vindur var að austan), en enga lykt úr Jökulsá á Sólheimasandi. Á fimmtudeginum, 15.júlí, fannst brennisteinslykt á Kirkjubæjarklaustri. Á föstudeginum, 16.júlí, var hringt frá Hvolsvelli þar sem hafði fundizt smátitringur. Á laugardeginum, 17.júlí, kl.15, fann ferðafólkið enga lykt úr Jökulsá, en aftur lykt úr Múlakvísl og var hún orðin alveg svört. E.h. fannst brennisteinslykt í Þórsmörk og hrundi úr Innsta-haus í Steinsholti. Um kvöldið hafði lögreglustjórinn í Vík samband við skjálftavakt og tilkynnti að einkennilegur litur væri á Jökulsá. Samkvæmt upplýsingum frá Almannavörnum fannst brennisteinslykt í Vík þetta kvöld og talið var að hún bærist frá Múlakvísl. Mánudaginn, 19.júlí, fann ferðafólkið enn lykt úr Múlakvísl, en hún var ekki svört lengur. Einnig fann það "gas" lykt úr Markarfljót.

Ég þakka fyrir þessar upplýsingar, sem eru settar fram hráar hér eins og þær bárust. Það þarf að bæta við þessar upplýsingar og vinna meira úr þeim. Ef einhverjir hafa við þær að bæta látið okkur vinsamlegast vita. B.S.Þ.


kristinj@vedur.is