Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið


Eftirlit með skjálftum, óróa og þenslumælum

Frá Ragnari Stefánssyni og Gunnari B. Guðmundssyni (V.Í.)

Mynd sem sýnir staðsetta skjálfta á Mýrdalsjökulssvæðinu 20/10-9/11 ber með sér að mest hefur verið um skjálfta í vestanverðum Mýrdalsjökli. Skjálftarnir eru þarna að mestu á stærðarbilinu 2-3. Þetta er mjög einkennandi fyrir hinar svokölluðu hausthrinur í vestanverðum Mýrdalsjökli, líka stærðardreifingin. Það má segja að skjálftarnir nú séu fremur í norðaustur-suðvestur stefnu en áður, þegar dreifin var í norðlæga stefnu og eilítið norðar en nú. Þarna er þó varasamt að draga of miklar ályktanir af slíkum breytingum þar sem búast má við talsverðri kerfisbundinni skekkju í staðsetningum vegna þess að hraðalíkanið er illa þekkt og byrjun á skjálftapúlsunum er ekki skörp.

Yfirleitt köllum við þessa skjálfta haustskjálfta. Við þekkjum þetta ferli, um aukningu skjálfta þarna á haustin, frá mælingum í 4 áratugi, þótt myndin sé skýrari nú en þá. Í greinarstúf sem ég skrifaði um þetta í Skjálftabréf fyrir 20 árum benti ég á að þetta mætti skýra með skjálftum sem verða vegna framsækinnar kviku. Þegar sn jófarg léttir á jöklinum á sumrin og frameftir hausti lækkar ytri þrýstingur á sprungur sem þessi kvika sækir inn í, þær opna sig og sprengja út frá sér. Fargið fer að vaxa aftur í nóvember og enn hraðar í desember og þrýstingur vex aftur á þessar sprungu r og jafnvægi kemst á aftur. Bæði ég og aðrir hafa sett fram ýtarlegri hugmyndir um þetta, en ég held að grunnhugmyndin að skýringu þessara skjálfta sé sú sama, sem sagt að skjálftarnir tengist á einhvern hátt vökvaþrýstingi á fárra km. dýpi niðri í jarðs korpunni og samspili við fargið ofan á.

Þótt þessir skjálftar séu þannig í breytilegum mæli árvissir í marga áratugi, a.m.k. er ekki ástæða til að útiloka að þeir tengist framsókn kviku mjög grunnt á svæðinu, þótt sú framsókn hafi hingað til ekki leitt til eldgoss á þessum síðustu áratugum.

Mynd sem sýnir tímaferli skjálfta á 4 "tengdum" svæðum og þenslu (volumetric strain) á Stórólfshvoli, sýnir talsvert miklar breytingar, þótt ekki sé ljóst enn hvernig á að túlka þær. Nokkuð var fjallað um þetta í síðustu Kötlufr étt sem ég skrifaði. Þensla er nú hröð (fallandi þrýstingur) kringum borholuna á Stórólfshvoli, síðan 5. nóvember, ekki ósvipað fall og byrjaði 20. mars. Við höfum gert talsvert af því að bera breytingar á tímaferlunum saman við aðra atburði, án þess að v ið höfum enn skilið samhengið, þótt ýmsar hugmyndir hafi komið fram til skýringar á hugsanlegri tengingu við skjálfta annars staðar og jarðhitavirkni. Það er afar mikilvægt að skoða þennan bakgrunn vel, og hann verður örugglega mikilvægur til samanburðar þegar breytingar verða sem kynnu að boða meiri atburði.

Fylgst hefur verið með óróa á jarðskjálftamælum á mismunandi tímaskölum. Það eru engar skýrar breytingar á innri óróa um þessar mundir sem hugsanlega gæti bent til vaxandi eða minnkandi jarðhitavirkni síðustu 2-3 vikur. Þess skal þó getið að ytri órói, út af vindi og sjógangi virka mjög truflandi á skoðun innri óróa um þessar mundir. Páll Halldórsson er að undirbúa umfjöllun um óróann, sem verður birt hér á síðunni á næstunni.


kristinj@vedur.is