Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið


Eftirlitsflug yfir Mýrdals- og Eyjafjallajökul þann 30.október sl.

Laugardaginn 30. október var farið í eftirlitsflug á vél Flugmálastjórnar yfir Mýrdalsjökul og Eyjafjallajökul. Vegna bilunar í tölvu tókst ekki að mæla radarlínur eins og áætlað var. Í staðinn var floginn hringur yfir Mýrdalsjökul og Eyjafjallajökul. Skyggni var sæmilegt en sólarlaust svo skerpa í ójöfnum í yfirborði var ekki sérlega góð.

Nýtt kort af yfirborði Mýrdalsjökuls frá Ísgraf var afhent vinnuhópi á Raunvísindastofnun. Verið er að fara yfir kortið og bera það saman við radarmælingar 8. og 16. október. Í því sambandi er nú að verða til kort af yfirborðinu byggt á radarmælingunum. Vinna við þessa skoðun hefur þó gengið hægar en ella vegna veikinda starfsfólks í síðustu viku. En þegar samanburði er lokið verður hægt að sjá hvaða breytingar urðu á sigkötlum milli 8. ágúst og 8. október. Einnig verður hægt að reikna heildarrúmmál sigkatla, áætla nokkuð vel breytingu á kötlum frá því fyrir umbrot í júlí og reikna aflaukningu jarðhitasvæðanna.

Í fluginu 30. október sást að ekki höfðu myndast sýnilegar sprungur í sigkötlum í tengslum við lítið hlaup í Múlakvísl sem staðið hafði dagana á undan. Þetta þýðir að sig katlanna nemur ekki nema fáum metrum í þessum litlu hlaupum. Ekki sáust heldur neinar sprungur í kötlum upp af Sólheimajökli og á Fimmvörðuhálsi hafa heldur ekki orðið breytingar.

Í Guðnasteini í toppi Eyjafjallajökuls sáust tvær litlar svartar skellur í annars hrímuðum klettinum. Þessar skellur gætu stafað af hita í klettinum en ekki er hægt að útiloka að nýlegt hrun hafi orðið eða að í öðru tilvikinu hafi verið opin sprunga upp við klettinn. Vegna ókyrrðar í lofti var ekki hægt að fljúga mjög nálægt og ganga úr skugga um þetta. Í næstu flugferð verður hugað betur að þessu. Ekki er vitað um hita í Guðnasteini en lýsingar benda til að samfara Kötlugosinu 1755 hafi toppur Eyjafjallajökuls hitnað eitthað.
Magnús Tumi Guðmundsson


kristinj@vedur.is