Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið


Mæling á yfirborði Mýrdalsjökuls 8. október 1999 Raunvísindastofnun (MTG, ÞH 11.10.99)

Á föstudaginn var (8. okt.) var í fyrsta sinn flogið í vél Flugmálastjórnar með flughæðarradar og GPS yfir Mýrdalsjökul og yfirborð hans mælt. Flognar voru 19 sniðlínur yfir öskjuna, m.a. yfir flesta þekkta sigkatla í jök linum. Alls sáust 12 reglulegir katlar innan öskjunnar. Tvær dældir suðaustan í Goðabungu sáust einnig og tveir staðir aðrir gætu verið dældir vegna jarðhita. Þá var flogið snið eftir endilöngum Eyjafjallajökli.

Mæliaðferð

Við mælinguna er notaður flughæðarradar í vél Flugmálastjórnar og GPS landmælingatæki. Gögnum frá radarnum er safnað með 0.25 sek. millibili og tímastýring fengin með 1 sek. millibili frá GPS tækinu. Radarmerkinu er breytt yfir á stafrænt form og skráð á fartölvu ásamt tíma. Á sama tíma skráir GPS tækið stöðu vélarinnar og gerð kinematisk mæling með viðmiðunarstöð á Reykjavíkurflugvelli. Staðsetning flugvélarinnar á hverjum tíma fæst því með nokkurra cm nákvæmni. Guðbjarni Guðmundsson verkfræðingur á Flugmálastjórn sá um viðbætur við búnað flugvélarinnar og skrifaði nauðsynlegan hugbúnað vegna stafrænnar söfnunar radarmerkisins. Prófanir á búnaðinum voru gerðar yfir Reykjavík í síðustu viku. Á Mýrdalsjökli var safnað um 250 km af mælingum á 1.5 klst . Könnun á samræmi mælilína í 54 skurðpunktum sýnir staðalfrávik upp á 1.8 m. Séu þeim 9 punktum sem lenda utan í hlíðum og halla sleppt, verður staðalfrávikið 1.2 m. Bendir þetta til þess að nákvæmni mælinga sé yfirleitt 1-2 m eins og að var stefnt.

Niðurstöður

Ekki er búið að gera kort af yfirborðinu út frá mælingunum eins og nauðsynlegt er til að fá fulla yfirsýn yfir niðurstöður. Allar mælilínur hafa þó verið teiknaðar upp og bornar saman við kort sem gert var eftir mælingum á jöklinum 1991. Tvö sýnishorn a f niðurstöðum og samanburði við 1991 fylgja með, línur 9 og 11.

Lína 11 liggur frá Sólheimajökli til ANA, yfir ketilinn sem myndaðist 17.-18. júlí og ketilinn sem liggur yfir gosstöðvunum frá 1918. Mælingin sýnir að nýi ketillinn er 1200-1400 m í þvermál og er um 40-45 m djúpur. Rúmtak hans er 20-25·106 m3. Kötluketillinn er 45-50 m djúpur en krappari en sá nýi, þvermál um 1 km. Hann er nú 15-20 m dýpri en 1991.

Lína 9 liggur til NA frá Sólheimajökli og rétt sunnan Austmannsbungu. Hann liggur yfir tvo katla sem báðir hafa stækkað töluvert frá 1991, einkum sá við Austmannsbungu.

Á korti sem byggt verður á þessum mælingum verður hægt að fá rúmmál allra katla, stækkun frá 1991 og þannig fá mat á stærð þess varmaatburðar sem varð í sumar. Niðurstöður úr þeirri vinnu munu liggja fyrir fljótlega. Áformað er að fljúga aftur og endurt aka allmargar af línunum á næstu 5-10 dögum. Samanburður við mælingarnar frá 8. október mun þá leiða í ljós hvort umtalsverðar breytingar séu í gangi.

Annað

Sterk brennisteinslykt var af Syðri Emstruá þegar flogið var yfir hana. Á vestanverðum Fimmvörðuhálsi sást sprungin hringlaga dæld í jökulfönn. Ekki er ljóst hvort dældin er ný eða hefur verið þarna um einhvern tíma. Verið er að fara yfir upplýsingar um það mál.


kristinj@vedur.is