Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið |
---|
Eftir atburðina 17.-18. júlí var hafist handa við að endurmæla GPS-landmælinganet Norrænu eldfjallastöðvarinnar og Raunvísindastofnunar umhverfis Kötlu og Eyjafjallajökul. Tilgangurinn var að ákvarða hugsanlegar jarðskorpuhreyfingar vegna kvikutilfærslu í rótum þessara eldstöðva frá því að síðast var mælt á þessu neti, en það var sumarið 1998. Mælingarnar voru gerðar í þremur atlögum:
1. Dagana 20.-22. júlí mældu Sigrún Hreinsdóttir og Halldór Ólafsson sex punkta sunnan og vestan við eldstöðvarnar: Hamragarða, Fimmvörðuháls, Skógaheiði, Sólheimaheiði, Höfðabrekkuheiði og Kötlukrika. Hreyfingar samkvæmt þessum mælingum eru litlar. Mestar voru þær í Kötlukrika, þar hefur land risið um fáeina sentimetra.
2. Dagana 16. - 21. ágúst mældi Páll Einarsson á 10 punktum til viðbótar: Steinsholt, Seljavallaháls, Dagmálafjall, Álftagróf, Sólheimar, Reynisfjall, Sker, Kjalnatær, Rjúpnafell og Ólafshaus.
3. Dagana 27. september - 2. október var lokið við mælingarnar. Þá voru mældir punktar á Austmannsbungu og Entu. Fengin var aðstoð sleðafólks frá Sólheimum til að komast á þessa punkta. Þá voru tengdir saman viðmiðunarpunktur við Hamragarða, punktur á Sólheimaheiði og nýja síritandi GPS-mælistöðin SOHO á Sólheimaheiði.
Úrvinnsla mæligagnanna úr 2. og 3. er að hefjast og má reikna með að hún
taki 2-3 vikur. Kostnaður vegna þessara verka hefur ekki verið tekinn saman enn.
Páll Einarsson.