Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið


Radarflug

Magnús Tumi Guðmundsson, Raunvísindastofnun Háskóla Íslands

Þann 5. nóvember sl. var farið í radarflug yfir Mýrdalsjökul. Flognar voru 9 sniðlínur yfir 15 sigkatla í jöklinum. Aðstæður til flugs voru ágætar og sást vel til allra katla. Töluvert hefur nú snjóað á jökulinn og er nú alveg fennt yfir sprungur í katlinum sem myndaðist í upptökum Sólheimajökuls. Að auki voru aðstæður skoðaðar á Fimmvörðuhálsi og Eyjafjallajökli.

Unnið hefur verið úr sniðmælingunum og þær bornar saman við fyrri mælingar. Er skemmst frá því að segja að ekki sjást marktækar breytingar á dýpt og lögun sigkatla, hvort heldur sem borið er saman við 8. eða 16. október. Á Fimmvörðuhálsi var allt með kyrrum kjörum og sigdæld sem þar myndaðist sást aðeins ógreinilega, enda í skugga. Í Guðnasteini í Eyjafjallajökli sást dökkur blettur austanhalt í klettinum, sá sami og sást á laugardaginn var. Hann er ekki stór (1-2 m í þvermál?). Að auki sáust nokkrir mjög litlir dökkir blettir suðvestan í Guðnasteini, þar sem hann slúttir fram yfir sig. Þeir blettir stafa af því að ísing hefur hrunið af klettinum, e.t.v. vegna sólbráðar. Eftir þessa skoðun er ekki hægt að staðfesta að hiti sé í Guðnasteini. Sé þar hiti gætir hans aðeins á litlum blettum og hann getur ekki verið mikill. Áfram verður fylgst með Eyjafjallajökli úr lofti. Gert er ráð fyrir að næsta radarflug verði að 2-3 vikum liðnum nema sérstök ástæða þyki til annars.
Magnús Tumi Guðmundsson


Síðast breytt: 10/20/2016 11:27:23

kristinj@vedur.is