next up previous contents
Next: Stöðvar til samfelldra GPS Up: Íslenskt ágrip Samfelldar GPS Previous: Íslenskt ágrip Samfelldar GPS

Inngangur

GPS kerfið samanstendur af 24 gervitunglum sem eru á sporbraut um jörðu í um 25.000 km fjarlægð. GPS gervitunglin senda frá sér bylgjur á tveimur tíðnum: L1 = 1575.42 MHz og L2 = 1227.60 MHz. Kóði sem inniheldur m.a. upplýsingar um hvað klukkan er hjá gervitunglinu og hvar það er staðsett er mótaður ofan á burðarbylgjurnar. GPS handtæki nota þennan kóða til að reikna fjarlægðina til gervitunglanna. Ef fjarlægð til a.m.k. fjögurra gervitungla er þekkt þá er hægt að reikna þrívíða staðsetningu mælitækisins með nákvæmni upp á nokkra metra.

Jarðskorpuhreyfingar nema örfáum sentimetrum á ári og því þarf sérhæfð GPS landmælingatæki og sérhæfðan hugbúnað til að fá staðsetningarnákvæmni innan við 1 cm. GPS landmælingatæki nota burðarbylgjurnar sjálfar auk kóðans. Til að losna við áhrif skekkjuvalda (t.d. veðrahvolfs og jónahvolfs) þá eru notaðar afstæðar staðsetningar, þ.a. mælitæki er staðsett miðað við þekkta staðsetningu annars mælitækis. Nákvæmnin er háð hversu lengi er mælt. Til að ná nákvæmni innan við 0.5 cm í láréttri staðsetningu og um 1 cm í lóðréttri staðsetningu þarf að mæla í átta klukkustundir eða lengur.

Ísland er á mótum Evrasíu- og Norður-Ameríkuflekanna sem eru að gliðna í sundur með hraða sem nemur um 1.9 cm á ári. Flekaskilin liggja eftir Reykjanesinu, um Suðurlandsbrotabeltið og norður eftir Eystra gosbeltinu. Við Húsavík og Kópasker hliðrast flekaskilin til vesturs að Kolbeinseyjarhrygg. Gliðnun landsins virðist að mestu fara fram á Eystra gosbeltinu og Vestra gosbeltið virðist vera lítið virkt. Eldvirkni fylgir að mestu legu flekaskilanna.

Flekaskil eru ekki skörp í þeim skilningi að heildarfærslan mælist yfir staka sprungu. Flekaskil eru um 20 til 60 km breið svæði þar sem aflögunar gætir. Utan aflögunarsvæða eru plötuhreyfingar einsleitar. Á flekaskilum er aflögun skrykkjótt vegna jarðskjálftahrina og eldgosa (mynd 21).


next up previous contents
Next: Stöðvar til samfelldra GPS Up: Íslenskt ágrip Samfelldar GPS Previous: Íslenskt ágrip Samfelldar GPS
Halldor Geirsson
2003-03-21