next up previous contents
Next: Niðurstöður Up: Íslenskt ágrip Samfelldar GPS Previous: Inngangur

Stöðvar til samfelldra GPS mælinga

GPS landmælingar á Íslandi til að rannsaka jarðskorpuhreyfingar hófust þegar á upphafsárum GPS kerfisins 1986. Í GPS landmælingunum er GPS loftneti stillt upp yfir fastmerki sem er koparnagli í fastri klöpp. Viðtæki tengt loftnetinu safnar gögnunum. Með endurteknum mælingum, á nokkurra mánaða til nokkurra ára fresti, má fylgjast með hvernig staðsetning fastmerkisins breytist við aflögun jarðskorpunnar. Í samfelldum GPS mælingum er mælitækjunum komið varanlega fyrir yfir fastmerkinu til að fylgjast með hvernig staðsetning þess breytist með tíma.

Það eru nokkur þúsund GPS stöðvar til samfelldra mælinga í heiminum í dag. Þær gegna fjölþættum tilgangi utan þess að mæla jarðskorpuhreyfingar. Fyrsta stöðin til samfelldra GPS mælinga á Íslandi var sett upp í Reykjavík í nóvember 1995 af Þýsku landmælingastofnuninni (BKG) í samstarfi við Landmælingar Íslands. Sömu aðilar settu upp stöð í Höfn í Hornafirði í maí 1997. Gögn frá stöðvunum eru notuð af mörgum alþjóðlegum úrvinnslumiðstöðvum, m.a. til að reikna út brautir GPS gervitunglanna.

Þrálát jarðskjálftavirkni í Henglinum hófst 1994. Landris (2 cm á ári) mældist á Hengilssvæðinu samfara jarðskjálftavirkninni, sem tengt var kvikuinnskoti skammt norðvestan við Hveragerði. Þessir atburðir voru hvati þess að Veðurstofa Íslands, Norræna eldfjallastöðin og Raunvísindastofnun Háskólans tóku saman höndum um uppbyggingu samfelldra GPS mælinga á Íslandi og var fyrsta stöðin sett upp á Vogsósum í Selvogi þann 18. mars 1999. Mælanetið kallast ISGPS og stöðvarnar eru flestar nálægt flekaskilum eða virkum eldfjöllum (mynd 1).

Uppsetning tækjabúnaðar á ISGPS stöðvum hefur að miklu leyti þróast beint út frá netmælingum. GPS loftnetið hvílir á fjórfæti úr ryðfríu stáli sem er festur í trausta klöpp. Undir miðju loftnetinu er fastmerki í klöpp sem er í raun punkturinn sem verið er að mæla. Viðtæki skráir mælingar frá gervitunglunum á 15 sekúndna fresti í innra minni (myndir 3 og 4). Á sólarhrings fresti hringir tölva í Reykjavík sjálfvirkt í viðtækin um mótald og sækir gögn frá tækjunum.


next up previous contents
Next: Niðurstöður Up: Íslenskt ágrip Samfelldar GPS Previous: Inngangur
Halldor Geirsson
2003-03-21