next up previous contents
Next: Bibliography Up: Íslenskt ágrip Samfelldar GPS Previous: Stöðvar til samfelldra GPS

Niðurstöður

Þegar gögn frá öllum samfelldum GPS stöðvum á Íslandi eru komin í hús er unnið sjálfvirkt úr þeim með spábrautum GPS gervitunglanna og niðurstöður uppfærðar á vefnum. Síðar eru endanlegar niðurstöður reiknaðar út með nákvæmnustu upplýsingum um brautir gervitunglanna.

Unnið er úr gögnunum með hugbúnaði sem kallast Bernese 4.2. Niðurstöður eru á formi hnita hverrar stöðvar miðað við gefin hnit viðmiðunarstöðvarinnar í Reykjavík (REYK). Hnit REYK eru í ITRF97 hnitakerfinu. Tímaraðir staðsetninga stöðvanna (myndir 8 til 20) eru sýndar sem breytingar frá ákveðnum tímapunkti á staðsetningu stöðva miðað við að staðsetning REYK breytist ekki.

Formlegar óvissur sem úrvinnsluforritið skilar eru of litlar, og eru óvissurnar því margfaldaðar með kvörðunartölum: 4.0 í láréttu þáttunum og 2.5 í lóðrétta þættinum. Kvörðunartölurnar eru fengnar með að bera saman formlegu óvissurnar og staðalfrávik í tímaröðunum eftir að útlagar hafa verið hreinsaðir úr tímaröðunum.

Tímaraðirnar sýna flekahreyfingar sem færslu í austur og suður, í ágætu samræmi við það sem plötuhreyfingalíkanið NUVEL-1A spáir fyrir um. Færslur vegna Suðurlandsskjálftahrinunnar í júní 2000 sjást sem stökk í austur og suður í tímaröðunum. Til að reikna plötuhraða sem lýsir meðalhreyfingu stöðvarinnar yfir nokkur ár verður fyrst að fjarlægja færslur vegna Suðurlandsskjálftanna úr gögnunum. Fæsluhraðarnir (mynd 26) benda til þess að meginhluti reksins fari fram á Eystra gosbeltinu, en ekki á Vestra gosbeltinu. GPS netmælingar frá fyrri tíð styðja þessa niðurstöðu. Lóðréttir færsluhraðar sýna að allar stöðvarnar eru á leiðinni upp, miðað við REYK, með hraða sem nemur 3 til 9 mm á ári.

Frávik frá NUVEL-1A plötulíkaninu sjást innan aflögunarsvæðis flekaskilanna og við Mýrdalsjökul. Stöðvarnar VOGS og OLKE virðast vera á jaðri aflögunarsvæðis flekaskilanna, en HLID og HVER eru vel innan þess -- þó á sínum hvorum flekanum. Miðja flekaskilanna er á milli HLID og HVER (mynd 27). Stöðin KIDJ er á miðju Suðurlandsbrotabeltinu, um 5 km vestan við Hestfjallssprunguna sem skalf 21. júní 2000. Stöðin hreyfist hraðar til norðurs en nálægar stöðvar (mynd 27) og kann það að stafa af áframhaldandi hreyfingum á misgenginu eftir jarðskjálftann.

Stöðvarnar HVER og OLKE eru nálægt miðju risins sem mældist á Hengilssvæðinu 1994 til 1998. Þær sýna engin merki um áframhaldandi ris frá því þær voru settar upp (vor 1999). Hugsanlegt er þó að risi hafi verið að ljúka um það leyti.

Stöðvar við Mýrdalsjökul benda til þess að kvikuþrýstingur undir Kötlu sé að aukast. Stöðin á Sólheimaheiði (SOHO) er um 5 km SV af öskjubrún Kötlu. SOHO er að færast frá öskjunni, í júlí og ágúst 2001 færist stöðin til suðurs um 4 mm. GPS netmælingar á öskjubrún Kötlu og í kringum Mýrdalsjökul styðja þessar niðurstöður. Nauðsynlegt er að fylgjast grannt með jarðskorpuhreyfingum við Kötlu í framtíðinni og mun SOHO gegna lykilhlutverki þar.

Heklugosið í febrúar 2000 kom vel fram á SOHO og einnig vottaði fyrir því á HVOL þrátt fyrir að stöðvarnar séu í yfir 50 km fjarlægð frá Heklu. Færslurnar voru í átt að Heklu og endurspegla þrýstiminnkun í kvikuþró undir Heklu. SOHO færðist um 7 mm í átt að Heklu á meðan á gosinu stóð. Færslunum ber ágætlega saman við líkan sem byggt er á gögnum frá þenslumælum Veðurstofu Íslands. Í janúar 2002 hófust samfelldar GPS mælingar við Ísakot, um 15 km frá Heklu. Sú stöð bætir eftirlit með Heklu til muna.

Í júní 2000 urðu tveir stórir skjálftar (með vægisstærðir (MW) 6.5 og 6.4) á Suðurlandsbrotabeltinu með þriggja og hálfs sólarhrings millibili. Samfara skjálftunum á Suðurlandi varð mikil jarðskjálftavirkni út eftir Reykjanesskaganum. Færslur vegna hvors skjálfta um sig eru vel aðgreinanlegar. Færslurnar á Vogsósum (VOGS) eru minni í seinni skjálftanum þó að skjálftarnir séu hér um bil jafnstórir og seinni skjálftinn sé nær. Það bendir til áhrifa frá smærri skjálftum sem urðu úti á Reykjanesi nokkrum mínútum eftir Holtaskjálftann 17. júní 2000. Færslum vegna Hestfjallsskjálftans 21. júní 2000 ber ágætlega saman við líkan byggt á GPS netmælingum. Viðmiðunarstöðin í Reykjavík var innan aflögunarsvæðis Suðurlandsskjálftanna.

Hlutverk ISGPS kerfisins í vöktun eldfjalla er mikilvægt. Katla á eftir að bæra á sér fyrr eða síðar og því er mikilvægt að fylgjast vel með jarðskorpuhreyfingum þar. Það er ákjósanlegt að fjölga stöðvum til að fylgjast með öðrum virkum eldstöðvum eins og Grímsvötnum, Öskju og Kröflu. Suðurlandsskjálftarnir 2000 eru taldir marka upphaf aukinnar jarðskjálftavirkni á Suðurlandi og því er fýsilegt að fjölga stöðvum á Suðurlandi í framtíðinni. Ákjósanlegt er að koma gagnasöfnun og úrvinnslu nær rauntíma, til dæmis á klukkustundar fresti, til að bæta rauntímaeftirlit með jarðvá. Í framhaldi af því mætti þróa sjálfvirkt viðvörunarkerfi sem lætur vita ef hreyfingar eru óeðlilegar. Í heildina séð hefur ISGPS kerfið réttlætt tilvist sína og tryggja verður áframhaldandi rekstur og þróun þess.


next up previous contents
Next: Bibliography Up: Íslenskt ágrip Samfelldar GPS Previous: Stöðvar til samfelldra GPS
Halldor Geirsson
2003-03-21