Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 981221 - 981227, vika 52

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

Til að prenta kortið má nota postscript

Gosið í Grímsvötnum hélt áfram alla vikuna, en mjög dró úr því. Í lok vikunnar var það farið að liggja niðri stund og stund, en rauk upp með nokkrum sprengingum og látum þess á milli. Í vikunni voru staðsettir 234 skjálftar og 1 sprenging (sunnan Hafnarfjarðar).

Suðurland

Nokkur virkni var á Hengilssvæðinu. Stærsti skjálftinn var á aðfangadag, í Miðdal, NV Litla-Skarðsmýrarfjalls (2,6 stig). Einnig urðu skjálftar í Ölfusinu. Smáir skjálftar urðu austar á Suðurlandi, sá mesti í smáhrinu vestan Hestvatns (1,5 stig). Á aðfangadag varð nokkur skjálftahrina SV Kleifarvatns og mældust þeir stærstu 2,6 og 2,4 stig. Þá varð skjálfti rétt út af Reykjanestá þ. 21, 1,8 stig.

Norðurland

Á aðfangadag varð atburður milli Fljóta og Ólafsfjarðar, 2,6 stig. Að öðru leyti ber helst að nefna skjálfta N og NV Grímseyjar, 2,5 og 2,6 stig.

Hálendið

Tvö skjálfta var hægt að staðsetja við Grímsvötn, þ. 22, 1,4 stig og daginn eftir, 1,8 stig. Nokkrir skjálftar urðu rétt V Landmannalauga, þeir stærstu 2,6 og 2,4 stig. Lítill atburður mældist í Gígjökli. Þ. 27 varð skjálfti í vestanverðum Hofsjökli, 2,1 stig. Þá varð skjálfti við Sandvatn. Óvenjulegustu atburðirnir urðu hins vegar syðst á Víðidalstunguheiði dagana 23. til 27. Þar mældust sex skjálftar á bilinu 1,6 til 2,6 stig.

Barði Þorkelsson