Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20020916 - 20020922, vika 38

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Suðurland

Hefðbundin smáskjálftavirkni á Holta-og Hestvatnssprungunum. Nokkrir smáskjálftar í Ölfusinu og á Hengilssvæðinu.

Norðurland

Þann 16.09. kl. 18:48 varð skjálfti sem mældist 5,5 að stærð og fannst víða um Norðurland. Upptök skjálftans voru milli Grímseyjar og Kobeinseyjar um 45 km NNV af Grímsey. Upptökin eru norðarlega í svokölluðu Tjörnesbrotabelti. Skjálftinn fannst allt frá Sauðárkróki í vestri til Þistilfjarðar í austri og langt inn í innsveitir Eyjafjarðar. Margir eftirskjálftar fylgdu í kjölfarið. Stærsti eftirskjálftinn var þann 17.09. kl. 12:40 og mældist hann um 4.3 stig. Í byrjun (16.09-17.09) var skjálftavirknin mest við upptök stóra skjálftans og SA af honum og einnig til suðurs í átt að Eyjafjarðarál. Þann 18.09. og 19.09. var talsverð smáskjálftavirkni austan við Grímsey.
Um og eftir hádegi þann 19.09. byrjaði skjálftavirkni um 15 km NNV við Grímsey. Um kvöldið kl. 19:44 var skjálfti þar sem mældist 3.4 stig. Tveimur mínútum síðar var skjálfti SA við upptök stóra skjálftans og mældist hann 3.7 stig. Nokkuð öflug eftirskjálftavirkni var á báðum þessum stöðum fram undir morgun þann 20.09.
Á laugardaginn og fram yfir hádegi á sunnudag er talsverð skjálftavirkni á öllum þessum slóðum. Eftir það dregur mjög úr virkninni. Rétt fyrir hádegi á sunnudeginum, kl.11:45 er skjálfti að stærð 2.7 um 5 km austan við Grímsey.

Skjálftaupptök eru einnig í Eyjafjarðarál, Tjörnesgrunni og inni í Öxarfirði.

Myndin hér að neðan sýnir upptök skjálfta á Tjörnesbrotabeltinu 16.09.-22.09. 2002. Skjálftar stærri en 3 eru táknaðir með fylltum grænum hringjum. SIL jarðskjálftamælistöðvar eru táknaðar með fylltum svörtum þríhyrningum

Hálendið

Undir Mýrdalsjökli voru um 223 skjálftar. Nær allir skjálftarnir áttu upptök undir vesturhluta jökulsins (Goðabungu). Um 17 skjálftar þar voru stærri en 2 en stærstu skjálftarnir voru um 2.5 að stærð. Einn skjálfti átti upptök undir Eyjafjallajökli, sunnan við Steinsholt. Hann varð þann 17.09. kl. 17:10, M=0.5. Fjórir skjálftar mældust á Torfajökulssvæðinu.

Þann 16.09. kl. 12:14 er skjálfti undir Hamrinum í Vatnajökli, M=1.3. Þann 21.09. kl. 09:58 er skjálfti að stærð 2.2 undir vestari Skaftárkatlinu í Vatnajökli.

Hlaup í Skaftá hófst þann 17.09. og kom það úr eystri Skaftárkatlinum í Vatnajökli. Myndin hér að neðan sýnir óróa á tíðnibilinu 1-2 rið sem mældist á Grímsfjalli (grf) dagana 17.09.-22.09. Á myndinni sést að óróinn byrjar að aukast um kl. 02 þann 18.09. og varir hann fram yfir 20.09. Um og eftir hádegi föstudaginn 20.09. bárust nokkrar tilkynningar um brennisteinslykt (jöklafýlu) frá Austurlandi. Þá var hæg suðvestan átt og uppruni fýlunnar nær örugglega frá útfalli Skaftár. Ennig hafði frést að jöklafýla hefði fundist í Færeyjum. Laugardaginn 21.09. um kl 14 barst tilkynning frá Gilsárbrú á Vesturlandi um brennisteinslykt.

Sjá einnig:
http://www.raunvis.hi.is/~mtg/skafkatl/skafkatl.htm
http://hraun.vedur.is/jar_inn/

Gunnar B. Guðmundsson