Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20021223 - 20021229, vika 52

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Í vikunni voru staðsettir 268 atburðir. Stærstu atburðurnir mældust 2.5 að stærð undir vestanverðum Mýrdalsjökli. Virkni var dreifð um allt landið.

Suðurland

3 skjálftar mældust úti á Reykjaneshrygg 23. og 27. desember (stærðir 1.4 til 1.6).
Nokkrir skjálftar mældust við Kleifarvatn og Fagradalsfjall á Reykjanesi.
Í Ölfusi, sunnan og suðvestan við Skálafell, mældust 23 smáskjálftar á stærðarbilinu -0.7 til 0.8. Skjálftarnir eru á svipuðum slóðum og jarðskjálftahrina í nóvember 1998.
Nokkur virkni er enn á Holta- og Hestfjallssprungunum.

Norðurland

Lítil hrina skjálfta varð NA af Grímsey aðfaranótt 28. desember.
Á Þorláksmessu mældust tveir skjálftar (stærðir 1.9 og 1.3) um 2 km SV af Þeystareykjum með stuttu millibili.

Hálendið

Mýrdalsjökull: Undir Mýrdalsjökli voru staðsettir 157 atburðir, þar af 39 stærri en 1.5 og 14 stærri en 2.3 á Richter. Flestir skjálftanna voru undir vestanverðum jöklinum, en þrír skjálftar voru innan öskjunnar. Þrír smáskjálftar eru sýndir á kortinu SA af Mýrdalsjökli. Staðsetning þeirra er illa ákvörðuð en þeir eru nálægt Láguhvolum. Í vikunni sáust nokkrir atburðir í grennd við Láguhvola sem ómögulegt var að staðsetja. Tæplega 100 litla atburði, sem sennilega eiga upptök sín undir vestanverðum jöklinum, var ekki hægt að staðsetja.
Torfajökull: Tveir skjálftar (stærðir 1.0 og 0.8) mældust undir vestanverðri Torfajökulsöskju.
Hofsjökull: Þrír skjálftar (stærðir 1.9, 1.2 og 1.2) mældust undir vestanverðum jöklinum þann 27. desember.
Vatnajökull: 9 skjálftar voru staðsettir undir Vatnajökli og 4 smáskjálftar undir Skeiðarárjökli.

Halldór Geirsson