Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20051010 - 20051016, vika 41

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

í Vikunni mældust um 700 skjálftar á og við landið, þar af voru tæplega 500 skjálftar í hrinu 16 km ausan við Grímsey. Stærsti skjálfti vikunnar var í þeirri hrinu. Hann var 3.5 að stærð og varð kl. 5 að morgni laugardags. Sjá sjálfvirkt staðsetta skjálfta úr hrinunni hér. Þetta er stærsta hrinan á svæðinu síðan í janúar á þessu ári, en þá urðu yfir 500 skjálftar við suðurjaðar þessarar hrinu og einn skjálfti nærri 5 að stærð, sem fannst víða á Norðurlandi. Sjá nánar hér.

Suðurland

Á miðvikudag varð 20 skjálfta hrina á Reykjanesi, um 2 km vestur af Sandfelli. Hrinan stóð yfir í rúman sólarhring og voru skjálftarnir á stærðarbilinu 0,8-2,6. Þrír litlir skjálftar mældust við Kleifarvatn, tveir í Brennisteinsfjöllum og einn við Vífilfell.

Í Hjallahverfi í Ölfusi urðu 15 skjálftar, suðaustan við Hveragerði mældust þrír skjálftar og einn vestan í Ingólfsfjalli; flest allir undir einum að stærð. Norðan Hveragerðis, á Hengilssvæðinu skráðust fimm litlir skjálftar.

Sex litlir skjálftar voru á Hestvatnssprungunni og tveir á Holtasprungunni. Einn skjálfti, 1,9 að stærð mældist við Surtsey.

Norðurland

Á mánudagsmorgun varð skjálfti af stærðinni 3,6 11 km norðaustur af Siglufirði. Í kjölfar hans, og innan næsta sólarhrings fylgdu fjórir skjálftar milli 1 og 2 að stærð.

Á fimmtudag, kl. 14:28 hófst skjálftahrina um 16 km austur af Grímsey og stóð hún fram í 42. viku. Hrinan var kröftugust milli kl. 5 og 10 á laugardagsmorgun og þá urðu einnig stærstu skjálftarnir. Sá stærsti var 3.6 að stærð, en auk hans mældust fjórir aðrir skjálftar stærri en 3. Í vikulokin höfðu mæslt þarna yfir 300 skjálftar.

Fjórir litlir skjálftar mældust í Skjálfandaflóa og níu skjálftar, 1-2 að stærð í Öxarfirði

Hálendið

Í Vatnajökli var nokkuð mikil virkni. Fimm skjálftar (1-1,9 að stærð) mældust austan við Bárðarbungu og 22 skjálftar þar norður af, við Kistufell. Sá stærsti þeirra var 2.8 að stærð, sá minnsti 1. Flestir þessara skjálfta urðu í hrinu sem stóð frá kl. 9 á laugardagskvöld, fram á laugardagsmorgun kl. 8. Einn skjálfti (1,9) mældist í Esjufjöllum, tveir (1 og 1,4 að stærð) við Hamarinn.

Á laugardag mældust einnig 31 ísskjálfti í Skeiðarárjökli. Þeir eru líklega vegna úrhellisrigninar sem var á suðausturlandi og olli meðal annars flóði á Höfn í Hornafirði.

Við Öskju mældust tveir skjálftar, þrír við Herðurbreiðartögl, einn við Ketildyngju og tveir í Bjarnarflagi. Þeir voru allir um 1 að stærð.

Í Mýrdalsjökli mældust 16 skjálftar. Þeir voru á stærðarbilinu 0,6-2,5. Þar af fjórir yfir stærðinni 2. Tveir voru inni í öskjunni, en restin við Goðabungu.

Í Torfajökli mældust tveir litlir skjálftar

Kristín S. Vogfjörð