Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20060529 - 20060604, vika 22

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Í vikunni voru staðsettir um 260 jarðskjálftar, 185 ísskjálftar í Skeiðarárjökli, 13 sprengingar og 5 líklegar sprengingar.

Suðurland

Mánudaginn 29.05. varð jarðskjálftahrina með upptök á Hellisheiði í rúmlega 1 km fjarlægð vestur af Kambabrún. Á myndinni sýna rauðu hringirnir hefðbundna staðsetningu en bláu hringirnar afstæðar staðsetningar skjálftanna. Hrinan hófst um 15 mínútur fyrir kl. 5 og stóð fram til um kl. 9 um morguninn. Stærsti skjálftinn í hrinunni var kl. 05:30 með stærðina 3.2 (Mlw). Afstæðar staðsetningar skjálftana sýna upptök þeirra á um 6 km dýpi og á um 0.5 km löngu lóðréttu misgengi með stefnu N13°A. Brotlausn stærsta skjálftans í hrinunni gefur til kynna að þetta sé hægri handar sniðgengi.

Fáeinir smáskjálftar áttu upptök á Suðurlandsundirlendinu.

Reykjanesskagi

Jarðskjálftahrina átti upptök um 4 km austur af Reykjanestá á tímabilinu 31.05-01.06. Upptökin virðast vera á línu með strik um 20-25 gráður austan við norður. Stærsti skjálftinn í hrinunni var um 2.7 stig að stærð(Mlw). Um 37 skjálftar mældust í hrinunni.

Þann 29.05. voru 2 skjálftar að stærð (Mlw) 1.7 og 2.2 með upptök um 7 km VSV af Geirfugladrangi á Reykjaneshrygg og þann 04.06. var einn skjálfti að stærð (Mlw) 2.1 um 3 km NNA af Geirfuglaskeri.

Fjórir skjálftar áttu upptök við Krísuvík.

Norðurland

Úti fyrir Norðurlandi voru skjálftar með upptök í Eyjafjarðarál, við Flatey á Skjálfanda og á Grímseyjarbeltinu milli Grímseyjar og Öxarfjarðar. Þrír skjálftar voru í Fljótunum og 2 skjálftar við Þeistareykjabungu. Allir þessir skjálftar voru minni en 1.7 að stærð.

Hálendið

Undir Vatnajökli mældust 3 skjálftar norðuatur af Bárðarbungu og 3 skjálftar við Dyngjujökul (Kistufell). Stærstu skjálftarnir á þessum svæðum voru um 2 stærð.

Undir Öræfajökli mældust 2 skjálftar. Sá fyrri að stærð 1.6 þann 29.05. kl. 01:59 og sá síðari þann 04.06. kl. 12:32 um 1 að stærð.

Ísskjálftar mældust í Skeiðarárjökli alla vikuna. Samtals mældust 185 ísskjálftar, flestir 1. og 2. júní. Uppsafnaður fjöldi ísskjálfta sýnir dægursveiflu. Þeim fjölgar mjög upp úr hádegi en fjara út um miðnættið. Þeir virðast fylgja dægursveiflunni í vatnshæð Skeiðarár samanber Vatnamælingavef Orkustofnunar. Talsverð úrkoma var á þessum slóðum, sérstaklega 31. maí og 1. júní sem getur hafa orsakað aukningu á ísskjálftum 1. og 2. júní.

Nokkrir skjálftar mældust við Öskju og nokkrar eftirhreytur voru norðan við Herðubreið frá skjálftahrinunni helginni áður.

Á Torfajökulssvæðinu mældust 3 skjálftar. Sá stærsti um 1.6 að stærð.

Mýrdalsjökull

Undir Mýrdalsjökli mældust 12 skjálftar. Fimm skjálftar voru með upptök við Goðabungu ,sá stærsti þar var um 2.1 að stærð. Einn skjálfti var við norðvesturhorn Kötluöskjunnar. Fimm skjálftar voru við norðausturbrún Kötluöskjunnar (Austmannsbungu). Þeir voru allir minni en 1.4 að stærð. Einn skjálfti var undir suðausturhluta öskjunnar og 2 (ís)skjálftar undir Kötlujöklinum.

Gunnar B. Guðmundsson