| Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið |
Jarðskjálftar 20070903 - 20070909, vika 36

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér
Sérkort af
Lýsing á skjálftavirkni vikunnar
Í vikunni voru staðsettir 193 atburðir, þar af 8 staðfestar eða líklegar framkvæmdasprengingar. Stærsti skjálftinn á landi var 2,4 að stærð í Mýrdaldsjökli. Virknin dreifðist frekar jafnt um landið í vikunni.
Suðurland
Á mánudag mældust 7 skjálftar rétt vestan við Saurbæ í Holtum. Tveir skjálftanna náðu stærðinni 2,0 en hinir voru smáir. Ekki er algengt að skjálftar mælist þarna, en það er heldur ekki óþekkt.
Einn skjálfti, 1,2 að stærð, mældist undir norðvesturhlíðum Heklu. Sjaldgæft að að skjálftar mælist undir Heklu utan gostíma.
Á Hengilssvæðinu og í Ölfusi mældust nokkrir smáskjálftar.
Reykjanesskagi
Viðvarandi smáskjálftavirkni var við sunnanvert Kleifarvatn alla vikuna. Alls mældust þar 28 atburðir, sá stærsti 2,0 að stærð. Einn skjálfti mældist á Reykjaneshrygg, tæpa 250 km frá Reykjanestá.
Norðurland
Á föstudag og laugardag stóð yfir lítil jarðskjálftahrina um 12 km austan við Grímsey. Alls mældust 26 atburðir, þeir stærstu 2,1 að stærð. Nokkrir skjálftar mældust úti af Eyjafirði og í Axarfirði.
Hálendið
Mjög hefur dregið úr virkni við Upptyppinga og mældust þar einungis 7 atburðir, sem allir voru í austasta kanti svæðisins líkt og í síðustu viku. Enn er grannt fylgst með virkninni við Upptyppinga.
Nokkrir skjálftar mældust við Öskju, Herðubreið og Kröflu.
Í Vatnajökli mælust 10 smáskjálftar, sá stærsti 1,4 að stærð.
Mýrdalsjökull
Undir Mýrdalsjökli voru staðsettir 28 atburðir, þar af fjórir yfir 2,0 að stærð. Að venju voru flestir skjálftanna vestan til í jöklinum. Jarðskjálftavirkni vestan í Goðabungu hefur aukist með haustinu, sjá línurit af tímaþróun árið 2007. Þessi aukning er árvisst fyrirbrigði.
Gangur vikunnar:
4.sep. kl. 11:45: Allt með kyrrum kjörum. Í gær mældust 7 skjálftar nærri Saurbæ í Holtum og náðu tveir skjálftanna stærðinni 2,0. Auk þess mældust nokkrir smáskjálftar undir sunnanverðu Kleifarvatni.
6.sep. kl. 09:30: Tíðindalaust.
7.sep. kl. 15:40: Einn skjálfti af stærðinni 1,2 mældist í Heklu í gær. Það er frekar sjaldgæft að skjálftar mælist í Heklu - undanfarin ár hafa mælst þar um 3 smáskjálftar á ári. Enn reitast inn skjálftar við Kleifarvatn og síðastliðna nótt var smáskjálftahrina um 10 km austur af Grímsey. Hér má skoða mynd sem sýnir jarðskjálftarit frá stöðinni í Grímsey.
10.sep kl. 09:10: Helgin og reyndar vikan öll var með rólegra lagi.
Halldór Geirsson