Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20080519 - 20080525, vika 21

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Þessa vikuna voru 234 skjálftar staðsettir og 6 ætlaðar sprengingar. Það sem hæst bar þessa vikuna var hrina í norðanverðum Þórisjökli. Á fimmtudaginn 22. maí varð þar stærsti skjálfti vikunnar, að stærð 3,5, og fannst hann í Reykjavík.

Suðurland

Dreifð virkni var á Suðurlandi en nokrrir skjálftar mældust um 3 km suður af Hveragerði, allir litlir og ekki er vitað til þess að þeirra hafi orðið vart.

Reykjanesskagi

Nokkrir dreifðir skjálftar mældust við Fagradalsfjall og Kleifarvatn, 1 við Brenniseinsfjöll og tveir undir suðausturhlíðum Bláfjalla.

Norðurland

Lítil virkni var á Tjörnesbrotabeltinu þessa vikuna.

Hálendið

Aðfaranótt mánudagsins 19. maí hófst hrina smáskjálfta í norðanverðum Þórisjökli, eða rétt suðvestan Prestahnúks. Kl. 09:12 að morgni fimmtudagsins 22. maí varð þar skjálfti að stærð 3,5 en hann var jafnframt stærsti skjálftinn sem mældist á landinu þessa vikuna, og fannst hann í Reykjavík. Í lok vikunnar höfðu mælst 115 skjálftar á svæðinu. Einnig mældust 9 skjáltar í Skálpanesi, vestan Langjökuls. Skjálftar mælast af og til á þessum slóðum en síðasta stóra hrinan í Þórisjökli varð í júlí 1999 þegar yfir 330 skjálftar voru staðsettir. Hrinan nú varð rétt norðvestan við 1999-virknina, en á sama dýpi, milli 3,5 og 5 km dýpi þegar skjálftarnir hafa verið endurstaðsettir með svokallaðri upptakagreiningu (afstæðar staðsetningar).

Nokkrir skjálftar urðu við austanverða Öskju, líkt og í síðustu viku. þá mældust nokkrir við Herðubreið og tveir (lágtíðniskjálftar, stærð 1,3 og 2,6) norðan Herðubreiðarfjalla að kvöldi 23. maí.
Í síðustu viku (viku 20) varð skjálfti að stærð 3,6 í Bárðarbungu og fylgdu nokkrir tugir skjálfta í kjölfarið. Þessa vikuna var enn virkni þar og mældust 12 skjálftar.

Órói sást á mörgum stöðvum á hálendinu og Norðurlandi og líka e-m Suðurlandsstöðvum um og upp úr kl. 13:30 24. maí. Líkast til eru þetta margir skjálftar en erfitt hefur reynst að staðsetja þá, utan einn sem varð klukkan 13:30 og er líklega í norðanverðum Hofsjökli. Hér má sjá spectrogram frá Skrokköldu á Sprengisandi, þar sem útslagið var einna hæst, og á Saurbæ (Suðurlandi).

Mýrdalsjökull

Rólegt var undir Mýrdalsjökli og voru aðeins 3 skjálftar staðsettir þar, þar af einn í Goðabungu og tveir í öskjunni.

Sigurlaug Hjaltadóttir