Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20080707 - 20080713, vika 28

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Í viku 28 voru ríflega 900 skjálftar staðsettir auk fjögurra ætlaðra sprenginga. Mesta virknin var í Ölfusi og Flóa. Stærsti skjálfti vikunnar varð við norðanvert Ingólfsfjall á þriðjudagsmorgni og var hann 3,3 að stærð. Margir ísskjálftar voru staðsettir í Skeiðarárjökli.

Suðurland

Mesta virknin var á suðurenda Kross-sprungunnar eins og undanfarnar vikur. Stærsti eftirskjálftinn í vikunni varð á þriðjudagsmorgni undir norðvesturenda Ingólfsfjalls og var hann 3,3 að stærð. Þetta var einnig stærsti skjálfti vikunnar. Annars voru skjálftarnir frá því að vera mjög litlir og upp í rúmlega 1 að stærð. Tæplega 20 smáskjálftar urðu annars staðar á Suðurlandi.

Reykjanesskagi

Á þriðjudagsmorgni hófst smáskjálftahrina við Sandvík og stóð hún fram eftir degi. Allir skjálftarnir voru inna við 1 að stærð. Tveir litlir skjálftar urðu við Kleifarvatn, átta við Krísuvík, einn við Fagradalsfjall og einn við Þórðarfell. Auk þess varð einn skjálfti á Reykjaneshrygg og var hann tæp 2 stig.

Norðurland

Um 60 skjálftar voru á Norðurlandi og þar af rúmlega 20 í Öxarfirði í smáhrinu sem varð á laugardag. Stærsti skjálftinn var 2,1 að stærð. Þrír litlir skjálftar voru við Kröflu og átta við Þeistareyki. Auk þess varð skjálfti langt norðaustur af landinu á föstudag. Hann var ríflega 3 að stærð.

Hálendið

Nokkrir skjálftar urðu í Vatnajökli. Einn undir Bárðarbungu, þrír við Kistufell, þrír við Grímsfjall, einn í Breiðamerkjurjökli, tveir í Kverkfjöllum, einn undir Háubungu og einn á Lokahrygg og var hann þeirra stærstur, 1,5 stig. Í Skeiðarárjökli voru staðsettir um 160 ísskjálftar auk nokkura í Brúarjökli. Nokkrir litlir skjálftar voru á svæðinu norðan Vatnajökuls. Við Langjökul urðu tveir skjálftar, annar í Geitlandsjökli 1,2 að stærð en hinn norðan Sandvatns 1,6 að stærð. Þá varð lítill skjálfti við Hofsjökul.

Mýrdalsjökull

Tíu skjálftar mældust í Mýrdalsjökli og þar af fimm innan öskjunnar. Stærsti skjálftinn var 2,2 stig og varð hann í vestanverðum jöklinum. Tveir smáskjálftar urðu í Eyjafjallajökli og 16 á Torfajökulssvæðinu.

Hlaup úr Grænalóni og ísskjálftar

Rétt fyrir hádegi þann 9. júlí kom staðfesting frá Veðurstofu og Vatnamælingum Orkustofnunar um að hlaup væri hafið úr Grænalóni. Þann 2. júlí var send tilkynning til Almannavarna um að Grænalón gæti hlaupið næstu daga eða vikur þar sem vatnsstaðan í lóninu var orðinn mjög há skv myndum sem Jón G. Sigurðsson flugmaður í Skaftafelli tók. Þann 5. júlí varð einn ísskjálfti í Skeiðarárjökli og næstu tvo daga á eftir voru 2 ísskjálftar hvorn dag. Þann 8. júlí varð veruleg aukning á ísskjálftum eins og sjá má á óróagrafi frá Kálfafelli (kal) á Síðu. Ísskjálftana má greina sem lítil tikk út frá bláu línunnu þe á tíðnibilinu 2-4 Hz. Haft var samband við Almannavarnir að kvöldi þess 8. júlí og tilkynnt að líklega væri von á hlaupi úr Grænalóni. Bláa línan á grafinu frá Kálfafelli sýnir einnig dægursveiflu sem líklega má rekja til dægursveiflu í árvatni vegna ísbráðnunar.

Ísskjálftar í Skeiðarárjökli eru mjög smáir og koma allajafna ekki fram í sjálfvirkri úrvinnslu. Þeir koma best fram á Kálfafelli (kal), Fagurhólsmýri (fag) og Grímsfjalli (grf). Þeir allra greinilegustu á jarðskjálftagrafi líta svona út á kal, fag og grf.
Búið er að yfirfara ísskjálftana með handvirkri úrvinnslu fram að hádegi þann 11. júlí. Niðurstöður þessara úrvinnslu má sjá á Bárðarbungukortinu hér að ofan svo og af eftirfarandi línuritum sem sýna uppsafnaðan fjölda og uppsafnaða strainútlausn og breiddarstaðsetningu sem fall af tíma.
Í fyrra grafinu má sjá aukningu á ísskjálftum þann 8. júlí. Rétt eftir hádegi þann 9. júlí verður veruleg aukning á ísskjálftunum sem varir fram til klukkan rúmlega 4 aðfaranótt þess 10. júlí. Eftir það dettur virknin nær alveg niður. Skýring á því getur verið að vatn renni óhindrað í gegnum rásina eða að útstreymi úr Grænalóni hafi lokast. Seinna grafið sýnir hvernig ísskjálftarnir færast suður eftir Skeiðarárjökli með tíma.

Athyglisvert er einnig að sjá ísskjálftana undir vesturhluta Brúarjökuls í Vatnajökli. Á óróagrafi frá Kreppuhrauni (kre) má sjá marga ísskjálfta og svipaða dægursvæflu eins og á Kálfafelli. Ísskjálftar sem koma fram á Kreppuhrauni eru hægir og með greinilegum P- og S-fösum. Ísskjálftarnir í Brúarjökli koma líklega fram vegna aukinnar ísbráðnunar á jöklinum.

Ísskjálftar mælast eftir miklar úrkomur, vegna ísbráðnunar eða vegna jökulhlaupa.

Staðsetning SIL-stöðva.
(Ofangreint um Grænalón var ritað upp úr hádegi þann 11. júlí.)

Jón flugmaður í Skaftafelli flaug yfir Grænalón fimmtudaginn 10. júlí og sá mikið vatn eftir í Grænalóni. Líklega hefur útrásin lokast um tíma. Hann flaug svo aftur yfir svæðið föstudaginn 11. júlí um kl. 15 og sá þá að útrásin frá Grænalóni inn undir Skeiðarárjökul hafði aldrei verið stærri.
Um kl. 16:30 þann 11. júlí byrja ísskjálftar aftur í Skeiðarárjökli og eru nær stöðugt fram undir kl. 07 morguninn eftir samanber óróarit frá Kálfafelli og Fagurhólsmýri.
Eftir handvirka úrvinnsla þessara ísskjálfta fram til 13. júlí þá sýna eftirfarandi uppfærð línurit uppsafnaðan fjölda ísskjálfta og breiddarstaðsetningu þeirra sem fall af tíma. Eins og sjá má af þessum línuritum mældust um 100 ísskjálftar frá föstudagssíðdeginu fram undir morguninn eftir. Líklega hefu þessi seinni gusa tæmt lónið.

Samkvæmt veðurstöð Vatnamælinga á Laufbala er lofthiti tiltölulega hár á svæðinu á tímabilinu 5.-10. júlí.
(2008-07-15 gg)

Sigþrúður Ármannsdóttir