| Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið |
Jarðskjálftar 20080818 - 20080824, vika 34

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér
Sérkort af
Lýsing á skjálftavirkni vikunnar
Eftirskjálftavirkni hélt áfram í Ölfusi og einnig skjálftahrinan við Grímsey. Stærsti jarðskjálfti vikunnar var á mánudag 18. ágúst. Hann var 4 að stærð með upptök austan við Grímsey og urðu Grímseyingar varir við hann. Í Hveragerði varð fólk vart við jarðskjálfta sem varð nokkrum kílómetrum NNA af bænum á miðvikudag 20. ágúst. Hann var 2,3 stig.
Suðurland
Eftirskjálftavirkni hélt áfram í Ölfusi. Lítil skjálftavirkni var á Suðurlandsundirlendinu.
Reykjanesskagi
Nokkrir smáskjálftar mældust í kringum Kleifarvatn og suðvestan við Bláfjöll.
Norðurland
Nokkur hundruð jarðskjálftar mældust í skjálftahrinunni austan við Grímsey, sem hélt áfram út vikuna. Stærsti jarðskjálftinn í hrinunni var 4 stig. Á þriðjudag 19. ágúst mældust um 40 jarðskjálftar í Öxarfirði. Á fimmtudag 21. ágúst hófst mikil skjálftavirkni við Flatey á Skjálfanda. Nokkur hundruð jarðskjálftar mældust frá fimmtudegi til sunnudags.
Hálendið
Vatnajökulssvæðið var nokkuð virkt líkt og síðustu vikur. Jarðskjálftar mældust með upptök norðaustan í Bárðarbungu, við Hamarinn, við Grímsvötn og við Kverkfjöll. Einnig mældust jarðskjálftar við Tungnafellsjökul.
Nokkrir smáskjálftar mældust á Herðubreiðarsvæðinu og við Kröflu.
Í Mýrdalsjökli mældust jarðskjálftar bæði í Kötluöskju og við Goðabungu vestan í jöklinum.
Bergþóra S. Þorbjarnardóttir