| Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið |
Jarðskjálftar 20091130 - 20091206, vika 49

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér
Sérkort af
Lýsing á skjálftavirkni vikunnar
Í vikunni voru staðsettir 216 jarðskjálftar á landinu og umhverfis það, flestir voru litlir, sá stærsti var 2,4 stig, um 100 kílómetra suðvestur af Reykjanesi. Einnig mældist einn skjálfti við Jan Mayen.
Suðurland
Á Suðurlandi var stærsti skjálftinn 1,4 stig, en hann var skammt frá Raufarhólshelli, þar sem nokkrir skjálftar mældust. Á Krosssprungunni urðu einnig nokkrir smáskjálftar.
Reykjanesskagi
Á Reykjanesskaga var lítil virkni, nokkrir skjálftar mældust þó á Reykjanesi, sá stærsti 2,0 stig. Úti á Reykjaneshrygg urðu nokkrir skjálftar, þeir stærstu 2,4 og 2,3 stig um 100 kílómetra frá landi.
Norðurland
Úti fyrir og á Norðurlandi voru skjálftar fremur fáir og dreifðir, sá stærsti var 2,2 stig um 40 kílómetra vestur af Grímsey.
Hálendið
Í Vatnajökli voru skjálftarnir dreifðir, sá stærsti 2,1 stig var skammt norðaustan við Bárðarbungu og annar 1,9 stig austan við Hamarinn. Sunnan við Herðubreið var svolítil virkni, en þar mældist á fimmta tug skjálfta, þar sem stærsti skjálftinn var 1,9 stig, en aðrir mun minni. Í Hofsjökli mældust tveir skjálftar 1,3 og 1,2 stig.
Mýrdalsjökull
Staðsettir voru 16 skjálftar í Mýrdalsjökli, sem allir voru í vestanverðum jöklinum utan öskjunnar. Tveir skjálftar voru 2,1 stig að stærð, en aðrir minni.
Þórunn Skaftadóttir og Ólafur St. Arnarsson