Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20100104 - 20100110, vika 01

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Rétt um tvöhundruð og sjötíu skjálftar voru staðsettir þessa vikuna. Það sem hæst bar var áframhaldandi skjálftahrina allra syðst á Kross-sprungunni en sú hrina hófst í þarsíðustu viku,viku 52 2009., en nú mældust þar um 50 skjálftar. Þá varð vart við áframhaldandi aukna virkni í Eyjafjallajökli en virknin þar hefur verið að glæðast á ný frá því um nýliðin áramót.

Suðurland

Mesta virknin í Suðurlandbrotabeltinu varð í Flóanum, allra syðst á/suður af Kross sprungunni. Um 50 skjálftar mældust þar í vikunni en stærsti skjálftinn, að stærð ML 2,3, varð þar um sex-leytið þriðjudaginn 5. janúar og fannst hann a.m.k. á Eyrarbakka. Strjálli virkni mældist einnig víðar um brotabeltið, m.a. í Hjallaverfi, á Ingólfsjallssprungu (frá maí 2008), Hestvants- og Holtasprungum (frá júní 2000) og allt austur að Selsundssprungu (frá 1912), nær austast í brotabeltinu.

Reykjanesskagi

Fáir skjálftar urðu á Reykjanesskaganum, aðeins 7 voru staðsettir og sá stærsti þeirra, ML 2,3 varð við suðurenda Kleifarvatns snemma að morgni 9. janúar.

Norðurland

Fremur strjál virkni var úti fyrir Norðurlandi, þar mældust tæplega 20 skjálftar.

Hálendið

Allnokkrir (15) skjálftar mældust norðaustan í Bárðarbungu, sá stærsti ML 1,9 að stærð. Margir smáskjálftar mældust einnig við Herðubreið og Herðubreiðartögl og norðan Upptyppinga, eins og í síðustu viku.

Mýrdalsjökull og Eyjafjallajökull

Rólegt var í Mýrdalsjökli, aðeins einn skjálfti var staðsettur þar í vikunni, en í Eyjafjallajökli voru staðsettir 33 skjálftar þessa vikuna. Stærstu skjálftarnir urðu á 7- 9 km dýpi, 8. og 10. janúar og allir ML 2,1 að stærð. Skjálftavirkni í Eyjafjallajökli (1) hefur verið að taka sig upp á ný og færast í aukana síðan um áramótin síðustu, eftir rólegra tímabil síðustu fjóra mánuði en síðastliðið sumar mældust um 200 skjálftar í fjallinu. Sú virkni var að öllum líkindum í tengslum við kvikuflutning og myndun nýs innskots undir suðurhlíðum eldfjallsins. GPS-mælistöðin á Þorvaldseyri (THEY) undir Eyjafjöllum færðist um ríflega 1 cm til suðurs í sumar og virðist nú aftur vera farin af stað. Um skjálftavirknina síðastliðið sumar má lesa í viðauka II í nýútkominni skýrslu Veðurstofunnar (pdf-skjal).

1. Grafið á png myndinni sem vísað er í hér að ofan sýnir stærð skjálfta sem fall af tíma, sem og uppsafnaðan fjölda, uppsafnaða spennuútlausn og dýpi skjálfta, talið að ofan.

Sigurlaug Hjaltadóttir