| Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið |
Jarðskjálftar 20100412 - 20100418, vika 15
PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér
Sérkort af |
Lýsing á skjálftavirkni vikunnar
Um 335 jarðskjálftar voru staðsettir í vikunni. Eldgosi á Fimmvörðuhálsi lauk í byrjun vikunnar. Um kl. 23 þriðjudaginn 13. apríl hófst mikil skjálftahrina undir toppgíg Eyjafjallajökuls. Annað eldgos hófst í kjölfarið. Stærsti skjálfti vikunnar var suðaustan við Grímsey föstudaginn 16. apríl, 3,6 að stærð.
Suðurland
Á annan tug skjálfta mældist á Suðurlandsundirlendinu, langflestir á Hestvatnssprungu.
Rúmlega 20 smáskjálftar mældust á Hengilssvæðinu, flestir við Raufarhólshelli.
Reykjanesskagi og -hryggur
Aðeins tveir smáskjálftar voru staðsettir á Reykjanesskaga. Í byrjun vikunnar var nokkur virkni á Reykjaneshrygg.
Norðurland
Stærsti skjálfti vikunnar var 3,6 stig með upptök um 20 kílómetra ASA af Grímsey föstudaginn 16. apríl. Yfir 40 skjálftar í viðbót voru staðsettir á sama svæði frá 16. - 18. apríl. Nokkur virkni var einnig norðaustur af Grímsey, í Öxarfirði og út fyrir mynni Eyjafjarðar.
Hálendið
Á Öskju og Herðubreiðarsvæði var fremur lítil smáskjálftavirkni. Á annan tug smáskjálfta voru staðsettir norðan og norðvestan við Upptyppinga.
Nokkur virkni var undir norðvestanverðum Vatnajökli, stærstu um 2,5. Skjálftar voru staðsettir norðaustan undir Bárðarbungu, undir Lokahrygg, við Kistufell og Grímsvötn.
Tveir skjálftar voru staðsettir undir Trölladyngju, rúmlega einn að stærð. Skjálfti var einnig staðsettur norður af Tungnafellsjökul, 1,5 að stærð. Einn skjálfti mældist undir Geitlandsjökli.
Mýrdals- og Eyjafjallajökull
Eldgosi á Fimmavörðuhálsi lauk í byrjun vikunnar. Nokkur skjálftavirkni var undir austur Eyjafjallajökli á mánudag og varð skjálfti 3,1 að stærð um morguninn. Upptök skjálfta sem fylgdu Fimmvörðuhálsgosinu voru á þessum stað.
Um kl. 23 þriðjudagskvöldið 13. apríl hófst skjálftahrina undir toppgíg Eyjafjallajökuls. Um 100 skjálftar mældust fram undir morgun, stærstu rúmlega tvö stig. Um kl. 01:15 kom gosórói fram á skjálftamælum í nágrenninu, sem markaði upphaf eldgossins. Lítið af skjálftum mælast samfara gosinu. Nánari upplýsingar um gosið má nálgast á forsíðu Veðurstofunnar.
Norður af Laufafelli á Torfajökulssvæðinu mældust fjórir smáskjálftar að kvöldi 13. apríl.
Bergþóra S. Þorbjarnardóttir