| Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið |
Jarðskjálftar 20100503 - 20100509, vika 18
PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér
Sérkort af |
Lýsing á skjálftavirkni vikunnar
Um 260 skjálftar voru staðsettir í vikunni. Mest bar á skjálftavirkni í Eyjafjallajökli og við Grímsey. Stærstu skjálftarnir urðu úti fyrir Austurlandi 4. maí (ML 3,7 á um 10,3°A) og úti á Reykjaneshrygg 7. maí (ML 3,2).
Suðurland
Fáir skjálftar voru staðsettir á Hengilssvæði og í Suðurlandsbrotabeltinu þessa vikuna. Við Ölkelduháls urðu tveir skjálftar, einn skjálfti varð um 5 km SSV Skálafells á Hellisheiði, fjórir urðu á Kross-sprungunni (frá 29. maí 2008) og einn í Haungerði, líklega á sprungu sem hreyfðist í stórum skjálfta 1734.
Reykjanesskagi og Reykjaneshryggur
Fáir jarðskjálftar mældust á Reykjanesskaga: þrír skjálftar mældust norðaustan við Bláa lónið, í námunda við
Stóra-Skógfell og Sýlingafell, einn skjálfti varð í Eldvörpum, einn við sunnanverðan Sveifluháls og einn í
Brennisteinsfjöllum. Úti á Reykjaneshrygg voru um tíu skjálftar staðsettir 6.-8. maí nærri Geirfuglaskeri, sá stærsti mældist ML 3,2 að stærð.
Norðurland
Við Grímsey voru um 70 skjálftar staðsettir í hrinu sem hófst að kvöldi 3.maí og stóð fram í næstu viku (viku 19). Milli
20 og 30 skjálftar mældust líka úti fyrir mynni Eyjafjarðar.
Hálendið
Líkt og síðustu vikur var viðvarandi jarðskjálftavirkni í nágrenni Öskju og Herðubreiðartagla. Skjálftarnir fjórir sem voru staðsettir rétt suðaustan við Öskjuvatn urðu allir á h.u.b. 4 km dýpi. Um 20 skjálftar voru staðsettir norðaustur af Bárðarbungu allt norðaustur að Urðarhálsi. Engir skjálftar voru staðsettir við Grímsfjall þessa vikuna en fjórir skjálftar voru staðsettir vestan Gjálpar, nærri Skaftárkötlum. Einn skjálfti var staðsettur við Breiðamerkurjökul.
Eyjafjallajökull og Mýrdalsjökull
Enginn skjálfti hefur verið staðsettur undir Mýrdalsjökli þessa vikuna. Jarðskjáftavirkni undir Eyjafjallajökli tók aftur kipp 3. maí en þá fóru að mælast djúpir skjálftar þar (dýpi í kringum 20 km). Einhverjir grynnri skjálftar fóru að mælast daginn eftir og í kjölfarið jókst gosvirkni um tíma í toppgíg Eyjafjallajökuls og gosmökkurinn hækkaði. Talið er að nýtt kvikuskot hafi komið úr möttlinum upp í jarðskorpuna undir Eyjafjallajökli og að það hafi jafnvel aukið þrýstinginn í núverandi kvikurás (sjá nánar frétt sem birt var á vef Veðurstofunnar, beinn tengil á mynd).
Sigurlaug Hjaltadóttir Hjálp veittu Sigþrúður Ármannsdóttir og Þórunn Skaftadóttir.