Á fimmta hundrað skjálfta hafa verið staðsettir þessa vikuna. Stærsti skjálftinn var norður á Kolbeinseyjarhrygg af stærð Ml 2,7. Mest var virknin undir Eyjafjallajökli og norðaustur af Grímsey. Einn skjálfti, af stærð Ml 0,7, mældist undir Heklu. Virknin undir Eyjafjallajökli mældist að mestu í tveimur hrinum, um hádegisbil á mánudegi og aðfararnótt laugardags.
Suðurland
Á Suðurlandsundirlendi mældust 48 skjálftar, allir af stærð undir Ml 2. Flestir urðu skjálftarnir á Krosssprungunni, en nokkrir skjálftar mældust á næstu sprungu vestan við. Skjálftar mældust einnig undir Ingólfsfjalli og á Hestvatns- og Holtasprungu. Einn skjálfti mældist undir Heklu laust fyrir miðnætti á laugardagskvöldið. Á Hengilsvæðinu mældust 5 skjálftar.
Rétt fyrir klukkan 4 aðfaranótt 11. maí 2010 komu fram 2 skjálftar með
upptök við Bjarnarey við Vestmannaeyjar. Upptök þessara skjálfta má rekja
til mikils grjóthruns úr norðvesturhorni Bjarnareyjar.
Fyrri skjálftinn var kl. 03:58:54 að stærð 1 en sá síðari var tæplega
3 sekundum seinna um 1,5 að stærð. Skjálftarnir mældust best á
SIL jarðskjálftamælastöðinni í Vestmannaeyjum. Vegna gosóróa á mælum við
Eyjafjallajökul þá komu þeir ekki vel fram þar. Líklega hefur fyrst hrunið
undan bjarginu en síðan hafa stærri brot fallið á það sem fyrir var og ollið
stærri skjálfta.
Samkvæmt Eyjafréttum
þá sá Haraldur Sverrisson trillusjómaður hrunið um kl. 04.
Eyjafréttir segja einnig frá grjóthruni á sama stað sem hefur fallið um eða stuttu
fyrir 4. maí 2010. (gg@vedur.is)
Reykjanesskagi
Rólegt var á Reykjanesskaga, 3 skjálftar mældust við Kleifarvatn og 2 við Vigdísarvelli. Nokkrir skjálftar mældust á Reykjaneshrygg, bæði á landgrunninu og lengra úti.
Norðurland
Á Norðurlandi og í Tjörnesbrotabeltinu mældust 159 skjálftar, flestir staðsettir norðaustan við Grímsey. Nokkrir skjálftar mældust í Öxarfirði, nokkrir úti fyrir mynni Eyjafjarðar og einn í Ólafsfirði. Stærsti skjálftinn í vikunni mældist á 67,07°N og 18,72°V, af stærð 2,7.
Hálendið
Einn skjálfti mældist undir Langjökli og annar austur af Skjaldbreið. Einn skjálfti mældist við Breiðamerkurjökul í Vatnajökli, tveir við Kverkfjöll og nokkrir á Lokahrygg og norður af Bárðarbungu.
Í Dyngjufjöllum mældust 5 skjálftar, 3 undir Herðubreið og einn við Kollóttudyngju.
Mýrdalsjökull
Mánudaginn 10. maí hófst hrina jarðskjálfta djúpt undir Eyjafjallajökli. Hrinan gekk að mestu leyti yfir á 2 tímum, en skjálftar mældust þó áfram. Aðfararnótt laugardagsins 15. maí varð svo önnur hrina djúpra skjálfta, sem þó var öllu minni en sú fyrri. Staðsetningu og dýpi skjálftanna má sjá hér.