Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20100510 - 20100516, vika 19

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Á fimmta hundrað skjálfta hafa verið staðsettir þessa vikuna. Stærsti skjálftinn var norður á Kolbeinseyjarhrygg af stærð Ml 2,7. Mest var virknin undir Eyjafjallajökli og norðaustur af Grímsey. Einn skjálfti, af stærð Ml 0,7, mældist undir Heklu. Virknin undir Eyjafjallajökli mældist að mestu í tveimur hrinum, um hádegisbil á mánudegi og aðfararnótt laugardags.

Suðurland

Á Suðurlandsundirlendi mældust 48 skjálftar, allir af stærð undir Ml 2. Flestir urðu skjálftarnir á Krosssprungunni, en nokkrir skjálftar mældust á næstu sprungu vestan við. Skjálftar mældust einnig undir Ingólfsfjalli og á Hestvatns- og Holtasprungu. Einn skjálfti mældist undir Heklu laust fyrir miðnætti á laugardagskvöldið. Á Hengilsvæðinu mældust 5 skjálftar.

Rétt fyrir klukkan 4 aðfaranótt 11. maí 2010 komu fram 2 skjálftar með upptök við Bjarnarey við Vestmannaeyjar. Upptök þessara skjálfta má rekja til mikils grjóthruns úr norðvesturhorni Bjarnareyjar. Fyrri skjálftinn var kl. 03:58:54 að stærð 1 en sá síðari var tæplega 3 sekundum seinna um 1,5 að stærð. Skjálftarnir mældust best á SIL jarðskjálftamælastöðinni í Vestmannaeyjum. Vegna gosóróa á mælum við Eyjafjallajökul þá komu þeir ekki vel fram þar. Líklega hefur fyrst hrunið undan bjarginu en síðan hafa stærri brot fallið á það sem fyrir var og ollið stærri skjálfta. Samkvæmt Eyjafréttum þá sá Haraldur Sverrisson trillusjómaður hrunið um kl. 04. Eyjafréttir segja einnig frá grjóthruni á sama stað sem hefur fallið um eða stuttu fyrir 4. maí 2010. (gg@vedur.is)

Reykjanesskagi

Rólegt var á Reykjanesskaga, 3 skjálftar mældust við Kleifarvatn og 2 við Vigdísarvelli. Nokkrir skjálftar mældust á Reykjaneshrygg, bæði á landgrunninu og lengra úti.

Norðurland

Á Norðurlandi og í Tjörnesbrotabeltinu mældust 159 skjálftar, flestir staðsettir norðaustan við Grímsey. Nokkrir skjálftar mældust í Öxarfirði, nokkrir úti fyrir mynni Eyjafjarðar og einn í Ólafsfirði. Stærsti skjálftinn í vikunni mældist á 67,07°N og 18,72°V, af stærð 2,7.

Hálendið

Einn skjálfti mældist undir Langjökli og annar austur af Skjaldbreið. Einn skjálfti mældist við Breiðamerkurjökul í Vatnajökli, tveir við Kverkfjöll og nokkrir á Lokahrygg og norður af Bárðarbungu.
Í Dyngjufjöllum mældust 5 skjálftar, 3 undir Herðubreið og einn við Kollóttudyngju.

Mýrdalsjökull

Mánudaginn 10. maí hófst hrina jarðskjálfta djúpt undir Eyjafjallajökli. Hrinan gekk að mestu leyti yfir á 2 tímum, en skjálftar mældust þó áfram. Aðfararnótt laugardagsins 15. maí varð svo önnur hrina djúpra skjálfta, sem þó var öllu minni en sú fyrri. Staðsetningu og dýpi skjálftanna má sjá hér.

Steinunn S. Jakobsdóttir