Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20100517 - 20100523, vika 20

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Í vikunni mældust tæplega 400 skjálftar. Mesta virknin var í Eyjafjallajökli en þar mældust á annað hundrað skjálftar. Stærsti skjálfti vikunnar varð í skjálftaröð, að kvöldi miðvikudagsins í mynni Eyjafjarðar og var hann tæp fjögur stig. Smáhrinur urðu við Flatey og undir Kleifarvatni.

Suðurland

Föstudagskvöldið 21. maí klukkan 18:56:56 varð skjálfti undir Vörðufelli í Biskupstungum sem var tæplega þrjú stig. Hann fannst m.a. í Laugarási og á Selfossi. Nokkrir eftirskjálftar fylgdu í kjölfarið. Um klukkustund síðar varð jarðskjálfti u.þ.b. 5 kílómetrum norðvestan við Hveragerði. Hann var litlu minni en sá við Vörðufell og fannst m.a. í Hveragerði og nágrenni. Tveir tugir smáskjálfta mældust á Kross-sprungunni, um tugur undir Hjallahverfi og nokkrir á sprungunum á Suðurlandi.

Reykjanesskagi

Á Reykjanesskaga urðu um 20 skjálftar, flestir undir Kleifarvatni en þar hófst smáskjálftahrina að morgni miðvikudagsins 19. maí og stóð hún fram á miðjan dag. Um 20 skjálftar urðu sömuleiðis á Reykjaneshrygg og var sá stærsti tæp þrjú stig.

Norðurland

Á og úti fyrir Norðurlandi mældust tæplega 90 skjálftar. Mesta virknin var úti fyrir mynni Eyjafjarðar en þar hófst skjálftaröð á miðvikudagskvöldið og stóð hún fram eftir nóttu. Stærsti skjálftinn var 3,9 stig og fannst m.a. á Siglufirði og í Ólafsfirði. Þetta var jafnframt stærsti skjálfti vikunnar. Smáhrina varð norðaustan við Flatey aðfararnótt sunnudagsins 23. maí og stóð hún fram undir morgun. Nokkrir skjálftar mældust norðaustan Grímseyjar,í Öxarfirði, við Kröflu og á Þeistareykjasvæðinu.

Hálendið

Tveir smáskjálftar mældust við Hafrafell, vestan Langjökuls, einn við Sandvatn og einn sunnan við Skjaldbreið. Í Hofsjökli varð einn skjálfti sem var tæp tvö stig að stærð. Í Vatnajökli öllum mældust 16 skjálftar. Fimm urður á Lokahrygg, þrír undir Bárðarbungu, þrír við Kistufell, tveir í Kverkfjöllum og einn í Breiðamerkurjökli. Stærsti skjálftinn í jöklinum var á Lokahrygg og var hann 2,7 stig. Á svæðinu norðan Vatnajökuls mældust liðlega tuttugu skjálftar,við Öskju, Herðubreið, Hlaupfell og við Álftadalsdyngju, allir um og innan við tvö stig.

Mýrdalsjökull

Sjö smáskjálftar mældust í Mýrdalsjökli, einn innan öskjunnar en aðrir í vesturjöklinum. Í Eyjafjallajökli mældust rúmlega 120 skjálftar,stærsti skjálftinn var 1,8 stig. flestir skjálftarnir voru á minna en 8 kílómetra dýpi.

Sigþrúður Ármannsdóttir