| Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið |
Jarðskjálftar 20101115 - 20101121, vika 46
PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér
Sérkort af |
Lýsing á skjálftavirkni vikunnar
Í vikunni 15.-21. nóvember 2010 voru staðsettir 179 skjálftar. Stærsti skjálftinn, Ml=2,7 varð 4,5 km vestur af Kolbeinsey. Enn mældust skjálftar við
sunnanvert Blöndulón. Þá fannst skjálfti í Hveragerði sem átti upptök sín rétt vestur af Ölkelduhálsi rétt fyrir miðnætti 16. nóvember en þó var hann ekki nema Ml 1,8 að stærð.
Suðurland
Nokkrir skjálftar urðu rétt vestur af Ölkelduhálsi í vikunni og fannst einn þeirra í Hveragerði. Hann varð kl 23:57:45 þann 16. nóvember og var 1,8 að stærð.
Flestir skjálftarnir í brotabeltinu urðu á Hjallasprungu og syðri hluta Kross-sprungunnar.
Reykjanesskagi
Aðeins tveir skjálftar voru staðsettir úti fyrir Reykjanesi. Á Reykjanesskaganum var mest um jarðskjálftavirkni vestan og SSV við Kleifarvatn,
líkt og síðustu vikur.
Norðurland
Sextán skjálftar mældust úti fyrir Norðurlandi, þeir urðu aðallega við mynni Eyjafjarðar og í Öxarfirði en einnig mældust skjálftar nærri Flatey á Skjálfandi og SA við Grímsey. Fjórir skjálftar voru staðsettir á Þeistareykjasvæðinu og einn sunnan Mývatns.
Hálendið
Enn mældust skjálftar við Blöndulón, átta í þessari viku og sá stærsti varð 21. nóvember kl. 12:10:20 og var 2,5 að stærð. Einn skjálfti mældist vestan
við Öskjuvatn og 18 norðan Upptyppinga, allir undir 2 að stærð. Fjórir skjálftar mældust í grennd við Grímsvötn, einn í Esjufjöllum og átta við Kistufell og Bárðarbungu. Þrír skjálftar voru staðsettir í Kverkfjöllum 15. og 16. nóvember, að stærð 1,4, 2,5 og 2,6.
Mýrdalsjökull
Miðað við síðustu viku dró úr virkninni undir Sandfellsjökli (vestanverðum Mýrdalsjökli) og aðeins einn skjálfti mældist þar þessa vikuna, 2,5 að stærð.
Annars mældust fáir skjálftar við Goðabungu, einn í norðaustanverðri öskjunni og einn lítill í Eyjafjallajökli, suðvestan við gosstöðvar í toppgígnum.
Sigurlaug Hjaltadóttir