Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20111017 - 20111023, vika 42

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Í þessari viku mældust 535 jarðskjálftar. Skjálftahrinur voru út af Reykjanesi og norður af Siglunesi. Mun færri niðurdælingarskjálftar mældust við Húsmúla en vikuna á undan. Nokkrir skjálftar voru yfir þremur stigum, sá stærsti suður á Reykjaneshrygg, 3,4 stig, þrír út af Hafnabergi vestast á Reykjanesskaga og tveir norður af Siglunesi. 

Suðurland

Um 100 skjálftar mældust á Hengilssvæðinu, flestir við Húsmúla, en mun rólegra var á því svæði þessa viku en þá fyrri. Allir skjálftarnir voru innan við tvö stig. Nokkrir smáskjálftar mældust á Kross-sprungunni frá 2008 og nokkrir á sprungum á Suðurlandsundirlendinu. 

Reykjanesskagi

Seinni part þriðjudagsins 18. október hófst jarðskjálftahrina út af Hafnarbergi á Reykjanesskaga og stóð hún fram á fimmtudagsmorgun. Föstudag og laugardag var rólegra á svæðinu en upp úr miðnætti aðfararnótt sunnudags tók hún sig upp á ný og stóð þá fram undir hádegi þess dags. Rúmlega 170 skjálftar mældust í hrinunni, sá stærsti tæp þrjú stig. Um tugur smáskjálfta mældist við Krýsuvík og Kleifarvatn og einn við Stóra-Kóngsfell.

Norðurland

Á og úti fyrir Norðurlandi mældust 56 jarðskjálftar. Um helmingur þeirra varð í skjálftahrinu, sem hófst upp úr klukkan átta á þriðjudagsmorgni þann 18. og stóð fram yfir hádegi, um það bil 30 kílómetra norður af Siglunesi. Tveir skjálftar losuðu þrjú stig. Rólegt var í nágrenni Grímseyjar og önnur virkni á Norðurlandi dreifðist í tíma og rúmi.

Hálendið

Við Kistufell í norðvestanverðum Vatnajökli mældust 33 skjálftar, sá stærsti 2,3 stig og var það stærsti skjálftinn í jöklinum. Fjórir skjálftar mældust undir Bárðarbungu, tveir undir Lokahrygg og sami fjöldi við Kverkfjöll.
Á svæðinu norðan Vatnajökuls mældist tæpur tugur smáskjálfta: við Öskju, Herðubreið og Hlaupfell. 

Mýrdalsjökull

Í Mýrdalsjökli mældust 103 skjálftar. Innan Kötluöskjunnar urðu rúmlega 60 smáskjálftar og dreifðust þeir um öskjuna. Í vestanverðum jöklinum, á Goðabungusvæðinu mældust 20 skjálftar, sá stærsti um tvö stig. Tólf smáskjálftar urðu við Hafursárjökul, suður af öskjunni og fjórir við Sólheimajökul auk nokkurra annarra í norðvestan- og austanverðum jöklinum.
Fimm smáskjálftar mældust á Torfajökulssvæðinu og fjórir undir og sunnan Langjökuls. 

Sigþrúður Ármannsdóttir og Þórunn Skaftadóttir