Veðurstofa Íslands
Eftirlits- og spásvið |
---|
[Fyrri mán.] | [Næsti mán.] | [Aðrir mánuðir og vikur] | [Jarðvárvöktun] |
Rúmlega 1200 jarðskjálftar mældust með SIL-mælakerfi Veðurstofunnar í júní. Aukin virkni var í Mýrdalsjökli, einkum innan öskjunnar og smáhlaup varð í Múlakvísl. Stærsti skjálfti mánaðarins, 3,7 að stærð, mældist í skjálftahrinu 30 kílómetrum suðaustan Kolbeinseyjar.
Rúmlega 100 jarðskjálftar mældust á Reykjanesskaga og um 20 á Reykjaneshrygg í allt að 90 kílómetra fjarlægð frá Reykjanestá. Skjálftarnir voru á stærðarbilinu -0,7 til 2,3, sá stærsti varð 7. júní á Reykjaneshrygg. Mesta virknin var við Kleifarvatn, tæplega 50 og 20 í Bláfjöllum. Stærsti skjálftinn var 2,1 þann 18. júní með upptök við Krýsuvík. Smáhrina varð í suðurhluta Móhálsadals aðfararnótt 30. júní og stóð hún fram til morguns. Um 20 skjálftar mældust, sá særsti 1,5 að stærð. Um 30 smáskjálftar á stærðarbilinu -0,2 til 2 áttu upptök á Hengilssvæðinu, flestir í námunda við Húsmúla og Ölkelduháls. Virknin á þessu svæði var tiltölulega lítil miðað við undanfarna mánuði. Yfir 90 jarðskjálftar á stærðarbilinu -0,6 til 1,6 mældust á Suðurlandsundirlendinu, flestir í Ölfusi, milli Þrengsla og Ingólfsfjalls. Undir lok mánaðarins mældust skjálftar í norðurhluta Ingólfsfjalls. Um 40 smáskjálftar mældust á svæðinu frá Hestfjalli og austur undir Selsund. Þann 6. júní um klukkan 15:00 mældust 10 skjálftar á innan við hálftíma milli Selsunds og Leirubakka, allir minni en 1,2 að stærð.
Undir Mýrdalsjökli mældust rúmlega 360 jarðskjálftar og þar af áttu 274 skjálftar upptök innan Kötluöskjunnar. Jarskjálftavirkni innan öskjunnar jókst verulega eftir 7. júní en þá um hádegisbilið varð jarðskjálfti rúmlega 3 að stærð með upptök í sunnanverðri öskjunni. Hann var jafnframt stærsti skjálftinn undir Mýrdalsjöklinum í mánuðinum. Mánudagsmorguninn 11. júní varð jarðskjálftahrina sunnantil í öskjunni sem stóð nokkra klukkutíma. Um svipað leyti kom smáhlaup í Múlakvísl sem stóð út alla þá viku. Smáhrinur með um 20-25 skjálftum voru einnig dagana 21., 24. og 29. júní. Um miðjan mánuðinn og til loka hans var skjálftavirknin aðallega um miðbik og norðausturhluta öskjunnar. Undir vesturhluta jökulsins voru 34 jarðskjálftar og þar var stærsti skjálftinn 2,3 að stærð. Við Hafursárjökul sunnan öskjunnar mældust 39 jarðskjálftar eða rúmlega einn að jafnaði á dag. Þeir voru allir undir 1 að stærð. Á Torfajökulssvæðinu mældust 26 jarðskjálftar og sá stærsti var um 1,5 að stærð.
Í og við Langjökul voru 23 jarðskjálftar. Þar af voru um 20 skjálftar í smáskjálftahrinu við Þórisjökul 2.-3. júní. Þeir voru allir um og innan við 1,5 að stærð. Dagana 21. og 22. júní mældust 7 skjálftar um 4 kílómetra vestur af Hvervöllum á Kili sem allir voru minni en 1,6 að stærð. Í vestara gosbeltinu mældust einnig 4 smáskjálftar við Högnhöfða og 3 norður af Skjaldbreið.
Rúmlega 50 skjálftar mældust í Vatnajökli, heldur færri en í maí. Mesta virknin var við Kistufell, tæplega helmingurinn, einnig við Hamarinn og á Lokahrygg. Stærsti skjálftinn var undir Bárðarbungu, 1,5 að stærð. Þann 27. júní mældust 3 jarðskjálftar með skömmu millibili um 6 kílómetrum norðan við Laka. þeir voru allir minni en 0,8 að stærð. Þrír skjálftar, allir minni en 1 að stærð mældust við Hálslón um 13 km suður af Sauðárdalsstíflu. Þrír skjálftar mældust í suðaustanverðum Tungnafellsjökli. Þann 5. júní mældust sjö smáskjálftar skammt suður af Fjórðungsöldu á Sprengisandi og síðdegis þann 16. júní varð smáhrina nokkru sunnar og vestar á Sprengisandi og stóð hún fram undir miðnætti. Allir skjálftarnir voru um og innan við einn að stærð. Fremur óvenjulegt er að skjálftar verði á þessu svæði.
Mun rólegra var á svæðinu norðan við Vatnajökul miðað við fyrri mánuð þegar um 600 skjálftar mældust þar en þennan mánuð voru þeir um 80. Mesta virknin var við Herðubreið og Herðubreiðartögl, tæplega 50. Við Öskju mældist rúmlega tugur smáskjálfta, flestir undir austanverðum öskjubarminum og er það heldur minni virkni en í síðasta mánuði.
Úti fyrir Norðurlandi mældust um 400 jarðskjálftar og var það þriðjungur allrar virkni á landinu. Stærð skjálftanna var á bilinu -0,9 til 3,7. Sá stærsti varð klukkan 11:11 þann 21. júní með upptök um 30 kílómetra suðaustur af Kolbeinsey. Smærri skjálftar mældust af og til á þessu svæði það sem eftir lifði mánaðar og var um 28% allrar virkni mánaðarins. Rúmlega 50 skjálftar mældust austan Grímseyjar, sá stærsti 2,7 að stærð. Á Húsavíkur-Flateyjarmisgenginu, í nágrenni Húsavíkur, mældust 36 skjálftar, flestir á um 10 kílómetra dýpi og allir innan við 2,2 að stærð. Heldur minni virkni var í nágrenni Húsavíkur miðað við undanfarna mánuði. Í Öxarfirði mældust 120 skjálftar.
Tæplega 20 smáskjálftar mældust í nágrenni Mývatns og um 15 við Kröflu og Þeistareyki.
Eftirlitsfólk í júní: Martin Hensch, Sigþrúður Ármannsdóttir, Matthew J. Roberts og Gunnar B. Guðmundsson