Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20120102 - 20120108, vika 01

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Hátt í þrjú hundruð jarðskjálftar mældust í fyrstu viku ársins 2012. Stærsti jarðskjálftinn, tæplega fjögur stig, varð rétt vestan við Krýsuvík þriðjudaginn 3. janúar kl. 21:13. Hann fannst víða á Reykjanesskaga, á höfuðborgarsvæðinu og á Akranesi.

Reykjanesskagi

Yfir 50 skjálftar fylgdu í kjölfar Krýsuvíkurskjálftans fram á kvöld 4. janúar. Upptökin voru undir sunnanverðu Sveifluhálsi. Flestir eftirskjálftanna urðu fyrstu klukkutímana eftir aðalskjálftann og voru innan við einn að stærð. Nokkrir voru þó milli eitt og tvö stig og einn Ml 2,3. Fáeinir skjálftar mældust annars staðar á Krýsuvíkursvæðinu.

Suðurland

Á Hengilssvæðinu var mesta virknin við Húsmúla eins og undanfarna mánuði. Hátt í 90 smáskjálftar mældust í vikunni, allir um og innan við einn að stærð. Nokkrir smáskjálftar í viðbót mældust á Hengilssvæðinu, í Ölfusi og Flóa.
Um 20 jarðskjálftar áttu upptök á Suðurlandsundirlendinu, flestir á Hestvatnssprungu, nokkrir á Holtssprungu og við Selsund. Stærstu voru um 1,5 stig.

Mýrdalsjökull

Enn dró úr skjálftavirkni í Mýrdalsjökli, en um 40 skjálftar mældust þar í vikunni. Flestir áttu upptök í Kötluöskju eða tæplega 30. Nokkrir urðu vestast undir jöklinum, nokkrir suðvestan í Goðabungu og við Hafursárjökul. Stærstu voru um og undir tveimur stigum. Fjórir smáskjálftar mældust á Torfajökulssvæðinu.

Hálendið

Ellefu skjálftar mældust undir og við Vatnajökul. Fjórir áttu upptök við Kistufell, stærstu um Ml 2,5. Fimm voru dreifðir við Hamarinn og á Lokahrygg og einn við Skaftárjökul. Þeir voru allir innan við tvö stig.
Norðan Vatnajökuls mældust einnig ellefu skjálftar, flestir eða átta norðan Hlaupfells. Tveir áttu upptök austan Öskju og einn við Herðubreiðartögl. Allir voru innan við tvö stig.
Einn skjálfti átti upptök norðan Hofsjökuls. Tveir skjálftar urðu undir Geitlandsjökli vestan í Langjökli. Allir voru innan við tvö stig.

Norðurland

Yfir 40 skjálftar áttu upptök í Tjörnesbrotabeltinu í vikunni, flestir í Grímseyjarbeltinu eða um 25. Stærstu skjálftar voru 2,8 og 2,9 stig með upptök 25 kílómetra austur af Grímsey. Þeir urðu kl. 21:43 og 21:46 3. janúar. Tveir skjálftar urðu norðarlega undir Tröllaskaga og einn við Vaglafjall austan Akureyrar, en þar hafa mælst nokkrir smáskjálftar undanfarnar vikur. Einn smáskjálfti mældist á Kröflusvæðinu. Tveir skjálftar mældust, sem urðu lengst norður á hrygg.

Bergþóra S. Þorbjarnardóttir