Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið |
---|
[Skjálftalisti] | [Fyrri vika] | [Næsta vika] | [Aðrar vikur] | [Jarðeðlissvið] |
Sérkort af
[Suðurlandi] | [Reykjanesi] | [Hengilssvæðinu] | [Bárðarbungu] | [Lang-og Hofsjökli] | [Öskju] | [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] | [Norðurlandi] |
Í vikunni mældust 200 skjálftar með SIL-mælakerfi Veðurstofunnar. Jarðskjálftahrina var á Reykjaneshrygg, önnur út af Siglufirði og aukin virkni vestan Geitafells á Reykjanesskaga.
Á Hengilssvæðinu mældist tæpur tugur smáskjálfta, flestir við Húsmúla á Hellisheiði. Álíka fjöldi mældist í Ölfusi og nokkrir á
sprungunum á Suðurlandsundirlendinu.
Upp úr miðnætti á sunnudegi hófst jarðskjálftahrina um það bil 10 kílómetrum vestsuðvestan Geirfugladrangs á Reykjaneshrygg. Þrjátíu eftirskjálftar fylgdu í kjölfarið, nokkrir yfir þremur að stærð. Hrinan stóð fram á morgun en nokkrir skjálftar höfðu orðið á þessum stað fyrr í vikunni og eins mældust nokkrir síðar á sunnudeginum. Klukkan 19:39 á miðvikudagskvöldið varð skjálfti rúmlega fjórum kílómetrum vestan Grindavíkur og annar tveimur mínútum síðar. Sá seinni var 2,5 að stærð og fannst í Grindavík. Sjö skjálftar mældust skammt vestan Geitafells á Reykjanesskaga, flestir snemma laugardagsmorguns. Þessir skjálftar voru nokkru sunnar en þeir sem mældust í jarðskjálftahrinunni í Bláfjöllum 30. ágúst. Annars staðar á Reykjanesskaga var frekar rólegt.
Rúmlega 50 skjálftar mældust í Tjörnesbrotabeltinu, þar af um 30 í hrinu syðst í Eyjafjarðarál, um 25 kílómetra norðnorðaustur af Siglufirði, sem stóð með hléum frá föstudagsmorgni og út vikuna. Stærsti skjálftinn var tæp þrjú stig. Tæpur tugur smáskjálfta mældist í Öxarfirði og sinn hvor skjálftinn við Kröflu og Þeistareyki.
Rólegt var í Vatnajökli en einungis fjórir smáskjálftar mældust þar og einn í Tungnafellsjökli. Á svæðinu norðan Vatnajökuls var einnig lítil virkni. Fjórir smáskjálftar mældust undir austanverðri Öskju og nokkrir við Herðubreið og Herðubreiðartögl.
Tæplega 30 smáskjálftar mældust í Mýrdalsjökli, flestir í vesturjöklinum við Goðabungu. Nokkrir smáskjálftar mældust á Torfajökulssvæðinu og einn við Skjaldbreið sunnan Langjökuls.