Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20131028 - 20131103, vika 44

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Rúmlega 250 jarðskjálftar mældust í vikunni. Engar stórar jarðskjálftahrinur urðu. Nokkur virkni var við Húsmúla á Hellisheiði og smáhrina varð á Bláfjallasvæðinu. Stærsti skjálfti vikunnar var 3,0 undir Lokahrygg í Vatnajökli.
 

Suðurland

Rúmlega 50 skjálftar mældust á niðurdælingarsvæði Orkuveitunnar við Húsmúla á Hellisheiði. Var sú virkni viðvarandi alla vikuna en um helmingur skjálftanna varð á miðvikudagsmorgninum 30. október, á tímabilinu frá 08:30 og fram undir hádegi. Stærstu skjálftarnir voru rúmt stig. Nokkrir skjálftar voru staðsettir norðan Hveragerðis, í Þrengslum og á þekktum sprungum á Suðurlandsundirlendi.
 

Reykjanesskagi

Milli 10 og 20 skjálftar mældust á Reykjanesskaga frá Kleifarvatni og vestur úr, stærsti 1,4. Á öðrum tímanum aðfaranótt 31. október hófst skjálftahrina á Bláfjallasvæðinu og stóð hún til morguns. Tuttugu skjálftar mældust, flestir innan við eitt stig en sá stærsti tæp tvö stig. Talsverð skjálftavirkni var á svipuðum slóðum í fyrra, og skjálfti sem var 4,6 að stærð mældist í ágústlok 2012. Skjálftarnir núna voru lítið eitt austan við svæðið sem var virkast í fyrra. Nokkrir skjálftar mældust nálægt Geirfugladrangi á Reykjaneshrygg, allir um og innan við tvö stig.
 

Norðurland

Tiltölulega rólegt var í Tjörnesbrotabeltinu, úti fyrir Norðurlandi, um 50 skjálftar á öllu svæðinu. Mesta virknin var í Öxarfirði, um 30, og um tugur á Húsavíkur-Flateyjarmisgenginu. Tveir skjálftar náðu stærðinni tveimur og voru þeir báðir úti fyrir mynni Eyjafjarðar. Lítil virkni var á svæðunum við Kröflu og Þeistareyki. Þrír skjálftar mældust á Kolbeinseyjrhrygg, stærsti 2,5.
 

Hálendið

Rólegt var í Vatnajökli líkt og undanfarnar vikur, rúmlega tugur skjálfta. Um helmingur skjálftanna var á Lokahrygg og þar var einnig stærsti skjálftinn í jöklinum og reyndar á landinu öllu. Hann varð klukkan 12:08 þann 28. október og var 3,0. Nokkrir skjálftar voru undir Kverkfjöllum, aðrir dreifðust um vestan- og sunnanverðan jökulinn. Á svæðinu norðan Vatnajökuls mældust 15 skjálftar, um helmingurinn austur af Öskju en aðrir við Herðubreið og Herðubreiðartögl, allir um og innan við eitt stig. Stakur skjálfti, 0,9 að stærð, varð undir Fjallöldu, norður af Dyngjufjöllum ytri.
Lítil virkni var í vestara gosbeltinu. Tveir smáskjálftar mældust sunnan Langjökuls, annar austan við Skjaldbreið og hinn norðan við Sandfell.
 

Mýrdalsjökull

Undir vestanverðum Mýrdalsjökli mældust 15 skjálftar, stærstu rúmt stig. Litlu færri urðu innan Kötluöskjunnar, stærsti 1,8 og nokkrir við Hafursárjökul. Stakur smáskjálfti varð upp af Gígjökli í Eyjafjallajökli. Rólegt var á Torfajökulssvæðinu.

Sigþrúður Ármannsdóttir