| Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið |
Jarðskjálftar 20140505 - 20140511, vika 19
PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér
Sérkort af |
Lýsing á skjálftavirkni vikunnar
Hátt í 1700 jarðskjálftar hafa verið staðsettir með SIL-mælakerfi Veðurstofu Íslands í vikunni. Skjálftahrinur voru bæði á Reykjaneshrygg og við Herðubreiðartögl og eru þær enn í gangi. Á fimmtudagskvöld varð skjálfti, fjórir að stærð, við Kaldárholt rétt austan við Þjórsá. Hann fannst víða á Suðurlandi og einnig bárust tilkynningar um að hann hefði fundist í Reykjavík, Hafnarfirði og Borgarnesi.
Suðurland
Fimmtudaginn 8. maí klukkan 23:14 varð jarðskjálfti, fjögur stig að stærð, við Kaldárholt rétt austan við Þjórsá. Skjálftinn fannst víða á Suðurlandi og einnig bárust tilkynningar frá Hafnarfirði, Borgarnesi og Reykjavík. Engir forskjálftar urðu á undan og örfáir eftirskjálftar mældust. Skjálftinn varð á sprungu sem hrökk 14. ágúst 1784 og orsakaði skjálfta sem var 7 að stærð. Klukkan 18:30 laugardaginn 10. maí hófst smáskjálftavirkni um fimm kílómetra norðvestur af Þjórsárbrú sem stóð yfir í sólarhring eða til klukkan 18:30 á sunnudagskvöld (11. maí). Rúmlega 40 skjálftar mældust.
Tiltölulega rólegt var á niðurdælingarsvæði Orkuveitunnar við Húsmúla á Hellisheiði. Þar mældist rúmur tugur skjálfta flestir á fimmtudegi (8. maí). Nokkrir litlir skjálftar mældust í Þrengslum og Hjallahverfi.
Reykjanesskagi
Skjálftahrinan sem verið hefur á Reykjaneshrygg síðustu tvær vikurnar hélt áfram í þessari viku, 180 skjálftar mældust. Fyrstu fimm daga vikunnar var mesta virknin suðvestur af Geirfugladrangi. Stærsti skjálftinn varð klukkan 10:17, á föstudagsmorgni (9. maí) 3,6 að stærð. Um helgina færðist virknin til norðurs og flestir skjálftarnir voru á svæði um sjö kílómetra norðvestur af Eldey. Stærsti skjálftinn á því svæði varð klukkan 01:57 aðfaranótt 11. maí og var hann einnig 3,6 að stærð. Rólegt var á Reykjanesskaga.
Norðurland
Fremur rólegt var á Tjörnesbrotabeltinu, rúmlega 30 skjálftar og allir innan við tvö stig.
Hálendið
Á þriðja tug skjálfta mældist undir Vatnajökli. Þrír urðu undir Skeiðarárjökli en aðrir dreifðust um vestan- og norðanverðan jökulinn. Stærsti skjálftinn var við Kverkfjöll, tvö stig að stærð. Skjálftahrinan sem hófst 3. maí við Herðubreiðartögl hélt áfram alla vikuna og í vikulok höfðu rúmlega 1100 skjálftar verið staðsettir. Stærsti Skjálftinn varð um miðja viku og var hann 2,9 að stærð. Um 75 skjálftar hafa verið staðsettir norðvestan við Herðubreið, stærsti um tvö stig. Á laugardag (10. maí) mældist um tugur smáskjálfta suðvestur af Vaðöldu. Í vestara gosbeltinu mældust fjórir skjálftar. Sá stærsti, 3,2 að stærð, varð undir Langjökli þann 10. maí klukkan 10:42. Einn skjálfti mældist undir Geitlandsjökli og tveir smáskjálftar suður af Jarlhettum.
Mýrdalsjökull
Tæplega 20 skjálftar, um og innan við einn að stærð, mældust undir Mýrdalsjökli. Sjö voru innan Kötluöskjunnar en flestir aðrir við Goðabungu. Einn smjáskjálfti mældist nærri toppgíg Eyjafjallajökuls. Á Torfajökulssvæðinu mældist um tugur skjálfta, stærsti rúmt stig.
Pálmi Erlendsson og Sigþrúður Ármannsdóttir
14. maí 2014