Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20140623 - 20140629, vika 26

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Tæplega 300 jarðskjálftar mældust í vikunni. Stærstu skjálftarnir voru 2,1 stig með upptök í Grímseyjarbeltinu.

Suðurland

Lítil skjálftavirkni var á Hengilssvæðinu og í Ölfusi. Á þriðja tug skjálfta mældist og voru upptökin dreifð. Nokkrir urðu meðfram Krosssprungunni sem hrökk í maí 2008. Á Suðurlandsundirlendinu mældust 14 skjálftar með upptök á þekktum sprungum. Þeir voru allir minni en 1,5 stig. Einn smáskjálfti varð undir suðvestanverðri Heklu. Hann var 0,9 að stærð og upptökin voru á litlu dýpi.

Reykjanesskagi

Á Reykjaneshrygg mældust aðeins tveir jarðskjálftar, báðir sunnan við Geirfugladrang. Þeir voru milli eitt og tvö stig að stærð. Á Reykjanesskaga voru innan við 20 skjálftar staðsettir. Um helmingur átti upptök á Krýsuvíkursvæðinu. Nokkrir urðu norðvestan Grindavíkur og við Fagradalsfjall. Austast á skaganum við Bláfjöll mældist einn smáskjálfti. Allir voru um og innan við einn að stærð.

Norðurland

Um 60 jarðskjálftar mældust í Tjörnesbrotabeltinu. Rúmur helmingur átti upptök í Öxarfirði og mældust skjálftar þar alla daga vikunnar. Í Grímseyjarbeltinu mældust um 20 skjálftar. Flestir urðu í hrinu með upptök um 25 kílómetra austsuðaustur af eynni. Hún stóð frá kvöldi 27. júní fram á næsta morgun. Stærsti skjálftinn var 2,1 stig. Nokkrir smáskjálftar (minni en eitt stig) mældust með upptök rétt norðan Flateyjar á Skjálfanda.
Fjórir skjálftar mældust við Kröflu og einn við Þeistareyki. Þeir voru allir innan við 0,5 stig að stærð.

Hálendið

Undir og við Vatnajökul mældust 80 skjálftar. Um helmingur átti upptök við Bárðarbungu, flestir undir norðaustanverðu fjallinu. Stærstu voru um 1,5 stig. Á annan tug skjálfta mældist við Kistufell, stærsti tvö stig. Á Lokahrygg urðu fjórir skjálftar vestan við vestari Skaftárketil, stærsti tvö stig. Nokkrir smáskjálftar mældust undir Grímsvötnum og smáskjálftar dreifðust milli Skeiðarárjökuls og Öræfajökuls. Austan við Fjórðungsöldu á Sprengisandi og við Vonarskarð mældust nokkrir skjálftar minni en eitt stig.
Um 30 skjálftar voru staðsettir við Dyngjufjöll. Um tugur varð við Öskju og um 20 undir Herðubreiðartöglum. Stærstu skjálftarnir voru rúmlega eitt stig.
Aðeins tveir skjálftar urðu í vestur gosbeltinu. Einn átti upptök vestan Hveravalla, 1,4 stig, og einn undir Geitlandsjökli í suðvestanverðum Langjökli, 1,1 stig.

Mýrdalsjökull

Hátt í 50 skjálftar mældust undir Mýrdalsjökli. Svipaður fjöldi varð undir vestanverðum jöklinum, innan Kötluöskju og við Hafursárjökul sunnan öskjunnar. Stærsti skjálftinn var tæp tvö stig með upptök undir vestanverðum jöklinum. Í vikunni mældust nokkrir smáskjálftar á um 20 kílómetra dýpi undir austurhluta Kötluöskjunnar eins og í vikunni á undan, en slíkir skjáfltar hafa mælst áður á svæðinu undanfarin ár. Einn smáskjálfti, 0,9 stig, varð undir Eyjafjallajökli. Á Torfajökulssvæðinu mældust sex skjálftar minni en 1,5 stig.

Bergþóra S. Þorbjarnardóttir
1. júlí 2014