Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20141027 - 20141102, vika 44

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Rúmlega 800 skjálftar mældust í vikunni, flestir í vestanverðum Vatnajökli. Búið er að yfirfara tæplega 500 skjálfta, þar af eru yfir 300 undir Bárðarbungu. Það sem eftir er verður klárað á næstu dögum. Sex skjálftar voru stærri en fimm stig.

Suðurland

Um tugur smáskjáflta mældist í Ölfusi og á Suðurlandsundirlendi.

Reykjanesskagi

Um miðjan dag þann 30. október hófst skjálftahrina, sem stóð fram eftir kvöldi, undir Brennisteinsfjöllum, suðaustur af Kleifarvatni. Hrinan hófst með skjálfta M3,1 klukkan 15:55 og öðrum M3,3 mínútu síðar. Um 40 eftirskjálftar fylgdu í kjölfarið. Nokkrir skjálftar mældust vestar á Reykjanesinu. Smáhrina varð um 9 kílómetra vestsuðvestur af Geirfugladrangi mánudaginn 27. október. Stærsti skjáfltinn var 3,7 að stærð.

Norðurland

Tæplega 20 jarðskjálftar mældust á norðanverðu landinu, um helmingur í Öxarfirði. Allir voru um og innan við tvö stig.

Hálendið

Rúmlega 300 jarðskjálftar hafa verið staðsettir við Bárðarbungu. Virknin dreifðist nokkuð jafnt yfir vikuna en var þó einna mest á fimmtudeginum (30. október). Sex skjálftar voru fimm stig eða stærri, flestir við norðurbrún Bárðarbunguöskjunnar en einn varð við suðvesturbrún hennar þar sem tiltölulega lítil skjálftavirkni hefur verið. Tveir skjálftar (yfir fimm stigum) urðu með um klukkustundar millibili aðfaranótt þriðjudagsins 28. október. Sá fyrri varð klukkan 04:54, M5,0 og sá síðari klukkan 06:04, M5,1. Tveir skjálftar yfir fimm að stærð urðu einnig föstudaginn 31. október. Sá fyrri varð klukkan 01:30 M5,3 og sá síðari klukkan 21:32, M5,2. Mánudaginn (27. október) og sunnudaginn (2. nóvember) varð skjálfti M5,3 sinn hvorn daginn. Hina þrjá dagana mældust ekki skjálftar yfir fimm stigum. Fimmtíu skjálftar voru milli fjögur og fimm stig og hátt í 60 milli þrjú og fjögur stig. Yfir 30 litlir skjálftar voru staðsettir undir norðanverðum bergganginum og um tugur sunnar. Nokkrir smáskjálftar voru staðsettir á svæðinu milli Tungnafellsjökuls og Vatnajökuls. Mun minni virkni var á svæðinu við Herðubreið í þessari viku en vikunni á undan. Í vestara gosbeltinu mældist einn skjálfti við Vestri-Hagafellsjökul og þrír nokkru sunnar. Allir litlir.

Mýrdalsjökull

Lítil virkni var undir Mýrdalsjökli í þessari viku. Þrír skjálftar mældust innan Kötluöskjunnar og sami fjöldi utan hennar. Stærsti skjáfltinn varð við sigketil númer 13 og var hann M1,6 að stærð. Tveir smáskjáfltar mældust á Torfajökulssvæðinu.

Sigþrúður Ármannsdóttir