| Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið |
Jarðskjálftar 20150316 - 20150322, vika 12

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér
Sérkort af
Lýsing á skjálftavirkni vikunnar
Í vikunni voru staðsettir 514 jarðskjálftar og tvær rannsóknarsprengingar. Stærsti skjálftinn mældist 3,5 að stærð þann 19. mars kl. 15:25 með upptök um 12 km suðvestur af Eldeyjardrangi á Reykjaneshrygg. Annar skjálfti 3,2 að stærð var við Eldeyjardrang þann 21. mars. Rúmlega 300 skjálftar mældust undir og við Vatnajökul. Stærsti skjálftinn þar mældist 2,4 stig og átti hann upptök undir Öræfajökli.
Suðurland
Á Hengilssvæðinu mældust um 7 skjálftar og voru þeir allir minni en 1 að stærð.
Á Suðurlandsundirlendi voru um 20 jarðskjálftar og voru þeir allir undir 1,3 að stærð.
Reykjanesskagi
Um 7 skjálftar voru á Reykjanesskaganum og flestir þeirra á Krýsuvíkursvæðinu.
Þeir voru allir minni en 1,5 að stærð.
Um 45 skjálftar mældust á norðaverðum Reykjaneshrygg. Nokkrir skjálftar mældust
um 12 km suðvestur af Geirfugladrangi þann 19. mars og mældist stærsti skjálftinn 3,5 að stærð kl. 15:25.
Aðfaranótt 21. mars var skjálftahrina með tæplega 30 skjálftum við Eldeyjardrang og stærsti skjálftinn þar var 3,2 að stærð kl. 02:44.
Norðurland
Rúmlega 50 jarðskjálftar mældust úti fyrir Norðurlandi. Flestir þeirra áttu upptök úti fyri rmynni Eyjafjarðar og á svonefndu Grímseyjarbelti, frá Grímsey og inn í Öxarfjörð. Stærsti skjálftinn mældist 2,1 stig og uptök hans voru fyrir mynni Eyjafjarðar.
Þrír skjálftar voru við Kröflu og tveir við Þeistareyki, allir minni en 1 stig.
Hálendið
Undir og við Vatnajökul mældust 314 jarðskjálftar. Þar af voru um 50 skjálftar undir Bárðarbungu, um 226 skjálftar í kvikuganginum og 8 við Tungnafellsjökul. Stærsti skjálftinn í Bárðarbungu var 1,7 að stærð
þann 20.3. kl. 03:51 og sá stærsti í kvikuganginum var 2 að stærð þann 18.3. kl. 18:15. Stærsti skjálftinn við Tungnafellsjökul var 1,3 stig.
Undir Öræfajökli mældust 9 skjálftar dagana 20. til 22. mars. Stærsti skjálftinn var að stærð 2,4 þann 21.3. kl. 00:10. Allir hinir voru á stærðarbilinu 0,8 til 1,2.
Einnig mældust skjálftar á Lokahrygg og við Grímsvötn.
Rúmlega 30 skjálftar voru við Herðubreið, Töglin og Öskju. Flestir þeirra voru við Herðubreið.
Stærsti skjálftinn mældist 1,3 að stærð með upptök um 3 km suðaustur af Herðubreið.
Einn skjálfti var tæpa 9 km vestsuðvestur af Lokatindi þann 16.3. kl. 01:33 og mældist hann 1,4 að stærð.
Stakir skjálftar voru undir norðausturhorni Hofsjökuls og á Kili. Sá stærri 1,9 stig við Kjöl.
Þrír skjálftar voru um 10 km norður af Geysi. milli Sandfells og Sandvatns. Sá stærsti mældist 1,4 stig.
Einn skjálfti var suður af Hlöðufelli, 0,9 að stærð.
Mýrdalsjökull
Undir Mýrdalsjökli voru 16 jarðskjálftar. Þar af voru 5 undir vesturhluta jökulsins og
7 í Kötluöskjunni. Fjórir skjálftar mældust norður af Klifurjökli. Stærstu skjálftarnir voru um 1,3 að stærð.
Einn skjálfti mældist undir Eyjafjallajökli þann 21. mars kl. 03:18 og var hann af stærðinni 1.
Á Torfajökulssvæðinu voru 5 skjálftar. Sá stærsti 1,2 að stærð.
Gunnar B. Guðmundsson