Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20150330 - 20150405, vika 14

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Um 440 jarðskjálftar mældust með SIL-mælakerfi Veðurstofu Íslands í vikunni. Mesta virknin var líkt og undanfarnar vikur við Bárðarbungu og í kvikuganginum undir Dyngjujökli. Skjálftahrina með um 40 skjálftum var við Krýsuvík. Enginn skjálfti náði þremur stigum að stærð í vikunni.

Suðurland

Um tugur smáskjálfta mældist í Ölfusi og annað eins á þekktum sprungum á Suðurlandsundirlendi. Einn smáskjálfti mældist norður af Heklu á fimmtudagsmorgni 2. apríl.

Reykjanesskagi

Tæplega 40 skjálftar mældust við Krýsuvik, flestir í skjálftahrinu sem hófst að morgni 31. mars og stóð fram eftir degi. Stærsti skjálftinn varð þann dag klukkan 11:03:55, 2,6 að stærð en flestir hinna innan við eitt stig. Þann 5. apríl mældust þrír skjálftar við Reykjanestá . Stærsti skjálftinn varð klukkan 19:59:55, 2,7 að stærð. Tveir smáskjálftar mældust undir Brennisteinsfjöllum fimmtudaginn 2. apríl. Á Reykjaneshrygg mældust tveir skjálftar, báðir innan við tvö stig að stærð.

Norðurland

Hátt í 50 skjálftar mældust úti fyrir Norðurlandi. Þar af um 20 í nokkrum smáhrinum í Öxarfirði. Tæpur tugur skjálfta mældist úti fyrir mynni Eyjafjarðar og svipaður fjöldi í Grímseyjarbeltinu. Allir skjálftar úti fyrir Norðurlandi voru um og innan við tvö stig að stærð. Nokkrir smáskjálftar mældust á svæðunum við Kröflu og Þeistareyki.

Hálendið

Um 50 skjálftar mældust við Bárðarbungu og er það svipaður fjöldi og í síðustu viku. Stærsti skjálftinn var 1,5 að stærð. Um 150 skjálftar voru staðsettir í kvikuganginum og er það nokkuð minni virkni en vikuna á undan þegar 200 skjálftar mældust þar. Stærsti skjálftinn í kvikuganginum var 1,5 að stærð þann 3. apríl klukkan 17:01. Tveir djúpir skjálftar mældust með stuttu millibili að morgni 3. apríl suðaustan Bárðarbungu á svæði þar sem djúpir skjálftar mælast af og til og einn til viðbótar bættist við tveimur dögum síðar. Stærsti skjálftinn, og jafnframt sá fyrsti af þessum þremur var 2,7 að stærð, hinir tveir um eitt stig. Nokkrir skjálftar mældust á Lokahrygg, stærsti um tvö stig og var hann staðsettur skammt vestan við eystri Skaftárketilinn. Fáeinir smáskjálftar áttu upptök suður af Grímsvötnum. Nokkrir litlir skjálftar mældust dagana 2. og 4. apríl um þremur kílómetrum vestan við Þórðarhyrnu í suðvestanverðum Vatnajökli. Um tugur smáskjálfta mældist við Tungnafellsjökul. Um 30 smáskjálftar mældust við Herðubreið og Herðubreiðartögl og um tugur við Öskju og svæðinu þar austur af.

Mýrdalsjökull

Um 20 skjálftar mældust undir Mýrdalsjökli sem er svipaður fjöldi og vikuna á undan. Helmingur átti upptök í vestanverðum jöklinum við Goðaland en aðrir við austanverðan öskjubarm Kötlu. Stærsti skjálftinn var 1,5 þann 30. mars kl. 04:57. Tveir smáskjálftar mældust í sunnanverðum Eyjafjallajökli. Nokkrir smáskjálftar mældust á Torfajökulssvæðinu.

Sigþrúður Ármannsdóttir