Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20150406 - 20150412, vika 15

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Rétt rúmlega 400 jarðskjálftar mældust með SIL-mælakerfi Veðurstofu Íslands í vikunni. Flestir áttu upptök í ganginum undir Dyngjujökli eða um 140. Yfir 30 skjálftar mældust við Bárðarbungu. Nokkur skjálftavirkni var við Vatnafjöll, þar sem 30 skjálftar mældust.

Suðurland

Helsta skjálftavirkni á Suðurlandi var rétt sunnan við Vatnafjöll. Þar mældust 30 skjálftar frá 9. - 12. apríl. Sá stærsti var 2,7 stig. Innan við tugur skjálfta mældist annars staðar á svæðinu, allir minni en eitt stig.
Sjö skjálftar voru staðsettir austan Eiturhóls á Mosfellsheiði 12. apríl. Þeir voru allir minni en eitt stig að stærð. Skjálftar á Hengilssvæðinu og í Ölfusi voru aðeins 15 og allir litlir (minni en eitt stig) og dreifðir.

Reykjanesskagi

Aðeins sjö skjálftar mældust á Reykjanesskaga, stærsti 1,5 stig. Tveir voru staðsettir við Bláfjöll og nokkrir á Krýsuvíkursvæðinu.
Úti á Reykjaneshrygg mældust nokkrir skjálftar, stærstu um þrjú stig.

Norðurland

Tæplega 50 skjálftar voru staðsettir í Tjörnesbrotabeltinu. Yfir helmingur átti upptök í Grímseyjarbeltinu, stærstu tæp tvö stig.
Nokkrir smáskjálftar mældust við Þeistareyki og Kröflu, minni en 0,5 stig.

Hálendið

Í ganginum undir Dyngjujökli mældust um 140 skjálftr, allir minni en tvö stig. Yfir 30 skjálftar mældust við Bárðarbungu, stærsti tvö stig, og flestir með upptök við vesturbrún öskjunnar.
Nokkrir skjálftar mældust við Grímsfjöll og sunnan þeirra. Þeir voru um og innan við eitt stig að stærð. Á Lokahrygg austan Hamarsins mældust fjórir skjálftar um og innan við eitt stig. Einn smáskjálfti varð við Kverkfjöll og tveir norðan Skeiðarárjökuls.
Undir norðurenda Tungnafellsjökuls urðu níu skjálftar, stærsti 2,2 stig.
Nokkrir skjálftar urðu austan Öskjuvatns, einn norðan þess og tveir við Dyngjufjöll ytri. Þeir voru allir minni en 1,5 stig. Í kringum Herðubreið og Herðubreiðartögl mældust yfir 30 skjálftar, stærsti 2,4 stig.
Aðeins þrír skjálftar mældust í vestara gosbeltinu. Tveir (minni en eitt stig) urðu sunnan Skjaldbreiðar og einn (eitt stig) suðvestan Sandvatns.

Mýrdalsjökull

Á þriðja tug skjálfta mældist undir Mýrdalsjökli. Þeir voru um og innan við eitt stig að stærð. Einn smáskjálfti var staðsettur sunnan undir Eyjafjallajökli.
Á Torfajökulssvæðinu mældust fjórir skjálftar. Tveir urðu með stuttu millibili við norðurbrún öskjunnar, báðir 1,5 stig. Hinir urðu við vesturbrún öskjunnar (1,0 og 1,3 stig).

Bergþóra S. Þorbjarnardóttir
13. apríl 2015