| Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið |
Jarðskjálftar 20150511 - 20150517, vika 20
PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér
Sérkort af |
Lýsing á skjálftavirkni vikunnar
Alls mældust 370 jarðskjálftar í vikunni. Mesti fjöldi skjálfta varð undir Dyngjujökli eins og undanfarna mánuði. Stærsti skjálfti vikunnar var aðeins tvö stig, en upptök hans voru við öskju Bárðarbungu. Hlaup úr Grímsvötnum náði hámarki í miðri vikunni og varð óróa vegna vatnsrennslisins vart á mælum á svæðinu.
Suðurland
Á Hengilssvæðinu og í Ölfusi var lítil skjálftavirkni. Aðeins tugur skjálfta mældist, allir minni en eitt stig.
Innan við tug smáskjálfta, minni en eitt stig, mældist á Suðurlandsundirlendi.
Reykjanesskagi
Aðeins þrír skjálftar mældust með upptök undir Reykjaneshrygg, allir nálægt landi. Lítil skjálftavirkni var einnig á Reykjanesskaga þar sem 10 skjálftar mældust, helmingur við Reykjanestá. Stærsti skjálfti þar var 1,8 stig.
Norðurland
Tæplega 40 skjálftar mældust á Tjörnesbrotabeltinu. Þeir voru dreifðir um beltið og enginn skjálfti náði tveimur stigum í stærð.
Nokkur smáskjálftavirkni var við Kröflu og Þeistareyki. Skjálftarnir voru um og innan við 0,5 stig að stærð.
Hálendið
Svipaður fjöldi skjálfta mældist í ganginum undir Dyngjujökli og síðustu vikur, alls 174 og stærsti 1,7 stig. Skjálftum fækkar hægt við Bárðarbungu, en þar mældust 22 skjálftar, stærsti 2,0. Síðustu vikur hafa mælst um 30 skjálftar á svæðinu.
Um tugur skjálfta mældist við Grímsvötn, allir minni en eitt stig. Hlaupið úr vötnunum náði hámarki miðvikudaginn 13. maí. Óróa varð vart á mælum á svæðinu í tengslum við vatnsrennslið. Nokkrir skjálftar voru staðsettir annars staðar undir Vatnajökli, undir Öræfajökli, norðan Skeiðarárjökuls, undir Lokahrygg og við Kverkfjöll. Þeir voru allir litlir. Enginn skjálfti mældist við Tungnafellsjökul í vikunni, en þar hefur verið viðvarandi virkni síðan umbrotin hófust í Bárðarbungu.
Um 40 skjálftar voru staðsettir við Öskju og Herðubreið. Allir voru minni en 1,5 stig.
Enginn skjálfti mældist í vestara gosbeltinu.
Mýrdalsjökull
Um 30 skjálftar mældust með upptök undir Mýrdalsjökli. Þriðjungur varð undir vestanverðum jöklinum, en flestir innan Kötluöskju. Stærstu skjálftarnir voru um eitt stig.
Nokkrir skjálftar mældust á Torfajökulssvæðinu (stærsti 1,4 stig) og tveir undir sunnanverðum Eyjafjallajökli (minni en eitt stig).
Bergþóra S. Þorbjarnardóttir