| Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið |
Jarðskjálftar 20150525 - 20150531, vika 22
PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér
Sérkort af |
Lýsing á skjálftavirkni vikunnar
Rúmlega 600 jarðskjálftar mældust með SIL-mælakerfi Veðurstofu Íslands í vikunni. Skjálftahrina hófst við norðvestanvert Kleifarvatn að morgni föstudagsins 29. maí og stóð fram eftir kvöldi. Stærsti skjálftinn, fjórir að stærð, varð klukkan 13:10 og fannst hann víðsvegar á höfuðborgarsvæðinu og á Akranesi. Virknin í Bárðarbungu og ganginum fer hægt minnkandi.
Suðurland
Rúmlega 30 skjálftar mældust á Hengilssvæðinu og í Ölfusi. Flestir skjálftarnir voru við Húsmúla á Hellisheiði, á niðurdælingarsvæði Orkuveitu Reykjavíkur. Stærsti skjálftinn á því svæði varð 28. maí klukkan 13:26, 2,2 að stærð. Tveir skjálftar mældust tveimur kílómetrum norðaustan við Skeggja á Hengli þann 31. maí með nokkurra mínútna millibili. Síðari skjálftinn varð klukkan 03:18, 2,3 að stærð. Um tugur skjálfta mældist á Suðurlandsundirlendi, allir innan við tvö stig.
Reykjanesskagi
Um 170 jarðskjálftar mældust við Kleifarvatn, flestir í skjálftahrinu sem hófst að morgni 29. maí við norðvestanvert vatnið og stóð fram eftir degi. Um hádegisbil (11:59) varð skjálfti 3,1 að stærð og annar rúmri klukkustund síðar af stærð 4,0. Tilkynningar bárust um að skjálftarnir (einkum sá síðari) hefðu fundist víðsvegar á höfuðborgarsvæðinu og á Akranesi. Nokkrir smáskjálftar mældust undir Brennisteins- og Bláfjöllum. Lítil virkni var á Reykjaneshrygg.
Norðurland
Rúmlega 20 skjálftar mældust í Tjörnesbrotabeltinu. Allir voru smáir, 1,5 stig og minni. Virknin var nokkuð dreifð um svæðið. Tveir smáskjálftar mældust við Þeistareyki, en 11 á Kröflusvæðinu. Stærsti skjálftinn var eitt stig.
Hálendið
Hátt í 150 skjálftar voru staðsettir í ganginum undir Dyngjujökli, en virkni þar fer hægt minnkandi. Stærstu skjálftarnir voru 1,2 stig. Um 70 skjálftar mældust við Bárðarbungu, stærsti um tvö stig, en skjálftum fækkar einnig smám saman á þessu svæði. Hátt í 20 skjálftar voru staðsettir undir sunnanverðum Vatnajökli, flestir milli Skeiðarárjökuls og Öræfajökuls og stærstu um eitt stig.
Um 70 skjálftar mældust á svæðinu norðan Vatnajökuls. Um 20 skjálftar voru staðsettir undir Herðubreiðartöglum og svipaður fjöldi suður af Herðubreiðarlindum, en stærsti skjálfti þar var 1,6 stig. Nokkur smáskjálftavirkni var austan Öskjuvatns.
Engir skjálftar mældust með upptök í vestara gosbeltinu.
Mýrdalsjökull
Hátt í 40 skjálftar mældust undir Mýrdalsjökli, flestir innan Kötluöskjunnar. Stærsti skjálftinn, 2,2 að stærð, varð skammt austan við sigketil númer 6 þann 30. maí klukkan 02:44. Tæplega tugur smáskjálfta mældist undir vestanverðum Mýrdalsjökli og fáeinir sunnan Huldufjalla í sunnanverðum jöklinum.
Tveir smáskjálftar mældust undir Eyjafjallajökli og tæpur tugur á svæðinu við Torfajökul.
Sigþrúður Ármannsdóttir, Benedikt Ófeigsson, Gunnar Guðmundsson og Bergþóra S. Þorbjarnardóttir