| Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið |
Jarðskjálftar 20150810 - 20150816, vika 33

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér
Sérkort af
Lýsing á skjálftavirkni vikunnar
Um 370 jarðskjálftar voru staðsettir í vikunni. Mesta virknin var norðaustan Grímseyjar. Tilkynningar bárust um fundinn skjálfta sem varð skammt frá Bláa lóninu þann 11. ágúst, 2,8 að stærð. Annar skjálfti sömu stærðar varð norðaustan Grímseyjar og voru þetta stærstu skjálftar vikunnar.
Suðurland
Tæpur tugur smáskjálfta varð á svæðinu við Nesjavelli. Lítil virkni var annars staðar í Ölfusi og á Suðurlandsundirlendinu. Einn smáskjálfti varð þann 11. klukkan 12:32 tæpum tveimur kílómetrum suðsuðaustan við Heklu.
Reykjanesskagi
Um 30 jarðskjálftar mældust á Reykjanesskaga. Um tugur smáskjálfta var staðsettur skammt norðan Reykjanesvirkjunar dagana 11. og 16. ágúst. Þriðjudaginn 11. ágúst klukkan 08:15 varð skjálfti af stærð 2,8 milli Svartsengis og Stóra Skógfells. Tilkynningar bárust um að hann hefði fundist við Bláa lónið og í Reykjanesbæ. Dreifð smáskjálftavirkni var við Kleifarvatn og á svæðinu þar austur af.
Norðurland
Ríflega 100 jarðskjálftar mældust úti fyrir Norðurlandi. Mesta virknin var skammt norðaustan við Grímsey þar sem mældust tæplega 80 skjálftar, einkum fyrri hluta vikunnar. Tveir skjálftar voru tæp þrjú stig. Sá fyrri, 2,7 að stærð varð klukkan 08:51 og sá síðari mínútu síðar, 2,8 að stærð. Tugur skjálfta mældist í Öxarfirði og litlu færri úti fyrir mynni Eyjafjarðar. Fáeinir smáskjálftar voru staðsettir á svæðunum við Þeistareyki og Kröflu.
Hálendið
Undir Vatnajökli mældust um 120 jarðskjálftar. Á þriðja tug skjálfta voru staðsettir við Bárðarbungu. Stærsti skjálftinn varð 15. ágúst klukkan 16:30, 2,2 að stærð. Um 60 skjálftar mældust í ganginum og er það svipaður fjöldi og undanfarnar tvær vikur. Allir skjálftarnir voru innan við tvö stig. Nokkrir skjálftar mældust á Lokahrygg og við Grímsvötn og um tugur smáskjálfta í sunnanverðum Vatnajökli. Rúmlega 10 smáskjálftar mældust við Öskju og litlu færri við Herðubreiðartögl.
Tveir smáskjálftar mældust við Geitlandsjökul í sunnanverðum Langjökli og einn austan við Hofsjökul. Þann 15. ágúst klukkan 17:56 varð smáskjálfti austan við Blöndulón.
Mýrdalsjökull
Ríflega 30 jarðskjálftar mældust undir Mýrdalsjökli, þar af um 20 innan Kötluöskjunnar. Flestir aðrir urðu í vestanverðum jöklinum á svæðinu við Goðaland. Snemma morguns 14. ágúst mældust fimm grunnir skjálftar undir miðri Kötluöskjunni, sá stærsti 2,2 að stærð. Tveir smáskjálftar mældust undir Eyjafjallajökli og rúmur tugur á svæðinu við Torfajökul.
Jarðvakt Sigþrúður Ármannsdóttir, Bryndís Gísladóttir, Salóme Bernharðsdóttir og Sölvi Þrastarson.