| Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið |
Jarðskjálftar 20150914 - 20150920, vika 38

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér
Sérkort af
Lýsing á skjálftavirkni vikunnar
Um 510 jarðskjálftar voru staðsettir með SIL-mælakerfi Veðurstofu Íslands. Stærstu skjálftar vikunnar mældust við Torfajökul og við Herðubreið, og voru þeir 2,3 að stærð. Smáhrinur urðu við Fagradalsfjall á Reykjanesskaga og við Herðubreiðartögl. Ríflega 60 skjálftar áttu upptök undir Mýrdalsjökli, þar of um helmingur inni í Kötluöskjunni.
Reykjanesskagi
Rúmlega 70 jarðskjálftar mældust á Reykjanesskaga. Flestir urðu í hrinu sem varð við Fagradalsfjall um helgina, sá stærsti var 2,1 að stærð þann 19. september kl. 14:49. Auk þess voru um 25 staðsettir við Krýsuvík og í Móhálsadalnum, allir innan við tvö stig. Smávirkni var við Reykjanestá, í Bláfjöllum og í Brennisteinsfjöllum.
Suðurland
Tæplega 30 smáskjálftar urðu á Hengilssvæðinu og við Þrengsli, þar af flestir norður af Eiturhóli og við Hrómundartind. Rólegt var á Suðurlandsundirlendinu. Aðeins sex skjálftar voru staðsettir á þekktum jarðskjálftasprungum þar, en enginn þeirra náði 1,5 að stærð.
Mýrdalsjökull
Alls mældust rúmlega 60 jarðskjálftar á Mýrdalsjökulssvæðinu, sá stærsti var 2,0 að stærð við Goðaland þann 18. september kl. 17:31. Um 30 skjálftar urðu í Kötluöskjunni, allir innan við tvö stig. Um 20 skjálftar voru staðsettir við Goðaland og um 10 við Hafursárjökul. Tæplega 50 skjálftar urðu við Torfajökul, stærsti var 2,3 að stærð þann 20. september kl. 01:20 og var hann í nágrenni Landmannalauga. Auk þess varð einn smáskjálfti undir Eyjafjallajökli og einn undir Heklu.
Hálendið
Tæplega 45 skjálftar voru staðsettir við Bárðarbunguöskjunna, allir innan við 2,5 að stærð. Í ganginum undir Dyngjujökli mældust um 70 skjálftar, allir minni en tvö stig.
Smávirkni varð undir Síðujökli og við Tungnafellsjökul. Einn smáskjálfti mældist undir Öræfajökli og annar við Grímsfjall.
Um 90 skjálftar urðu við Herðubreið og Herðubreiðartögl, þar af um helmingur í smáhrinu við sunnanverð Herðubreiðartögl þann 15. september. Stærsti skjálfti á þessa svæði mældist þann 17. september kl. 00:11 og var hann 2,3 að stærð. Auk þess urðu tæplega 20 smáskjálftar við Öskju og sex djúpir skjálftar norðan Öskju.
Norðurland
Fremur rólegt var úti fyrir Norðurlandi. Aðeins um 25 jarðskjálftar voru staðsettir þar, flestir á Grímseyjarbeltinu og í Öxarfirði. Stærsti skjálfti var 2,3 að stærð þann 15. september kl. 12:33 suðaustan Grímseyjar. Smávirkni var við Flatey, einn skjálfti mældist við Kolbeinsey. Tæplega 20 smáskjálftar áttu upptök við Kröflu, allir innan við 1,2 stig.
Jarðvakt: Martin Hensch, Bryndís Ýr Gísladóttir og Hildur María Friðriksdóttir