Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20161107 - 20161113, vika 45

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Um 280 jarðskjálftar mældust með SIL-mælakerfi Veðurstofu Íslands í vikunni, sem eru töluvert færri skjálftar en í vikunni á undan. Aðeins einn jarðskjálfti var yfir þremur stigum í liðinni viku, skjálftinn var af stærð 3,5 í Bárðarbungu kl 17:20 þann 11. nóvember. Um 60 skjáftar mældust í Mýrdalsjökli og Goðalandi, þar af var rúmlega helmingur skjálftanna innan Kötlu öskjunnar. Einnig hefur verið smáskjálftavirkni á Torfajökulssvæðinu. Um 30 jarðskjálftar voru staðsettir í Bárðarbungu.

Suðurland

Á suðurlandi mældust rúmlega 40 jarðskjálftar í liðinni viku, allt voru það smáskjáftar með stærsta skjálftann af stærð 2,2 nokkrum kílómetrum austur af Selfossi. Nokkrir skjálftar mældust 11. nóvember við norðurenda Selsundssprungunnar frá 1912. Örfáir smáskjálftar mældust við Neðrafjall við Ölfusá. Tveir skjálftar voru í Heklu og um 15 skjálftar voru á Torfajökulssvæðinu. Einnig kom skjálfti rétt vestur af Vestmannaeyjum, 1,9 að stærð og á 15 km dýpi. p>

Reykjanesskagi

Tæplega 40 skjálftar voru staðsettir á Reykjanesi, þar af einn á Reykjaneshrygg. Flestir skjálftanna voru um og undir einu stigi, fyrir utan einn við Kleifarvatn sem var tæp tvö stig. Skjálftarnir voru dreifðir um skagann, nokkrir við Grindavík og við Kleifarvatn.

Norðurland

Um 50 jarðskjálftar voru staðsettir á Tjörnesbrotabeltinu, um 20 skjálftanna voru í Öxarfirði, rúmlega 10 norður af Grímsey. Allir skjálftarnir voru tiltölulega litlir, með stærstu skjálftana uppá 2,1 stig. Á landi voru tæpur tugur skjálfta sem voru staðsettir við Kröflu, við Bæjarfjall og við Hrútafjöll.

Hálendið

Um 80 jarðskjálftar voru staðsettir á Hálendinu í liðinni viku. Í Bárðarbungu voru 30 skjálftar allir undir tveimur stigum að einum undanskildum sem var 3,5 að stærð þann 11. nóvember. Sunnar í Vatnajökli voru nokkrir skjálftar, flestir við Grímsfjall. Um 20 skjálftar voru á Herðubreiðarsvæðinu, allir skjálftarnir voru um og undir einu stigi. Einnig var um tugur skjálfta í Öskju og annað eins í ganginum. Tveir skjálftar voru staðsettir norðaustur af Langjökli.

Mýrdalsjökull

Ríflega 60 skjálftar voru staðsettir í og við Mýrdalsjökul, þar af um 35 innan Kötluöskjunnar. Stærstu skjálftarnir sem mældust voru 2,5 og 2,8 að stærð, staðsettir austarlega í öskjunni. Rúmlega tugur skjálfta var í Goðabungu og á nærliggjandi svæðum. Tæpur tugur mjög grunnstæðra smáskjálfta var í Kötlujökli.

Jarðvakt