Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20161121 - 20161127, vika 47

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Um 400 jarðskjálftar voru staðsettir með SIL-mælakerfi Veðurstofu Íslands í vikunni. Flestir skjálftanna mældust á miðhálendinu en einnig voru margir úti fyrir Norðurlandi og undir Mýrdalsjökli. Stærsti skjálfti vikunnar, 3,8 að stærð, varð í Bárðarbunguöskjunni þann 26. nóvember. Undir Mýrdalsjökli mældust tæplega 80 skjálftar og var stærsti skjálftinn 2,8 stig með upptök við austurbrún Kötluöskjunnar. Þann 26. nóvember kl. 02:36 varð jarðskjálfti um 3 að stærð með upptök í Fremstadal á Hengilssvæðinu, um 7 km norðvestur af Hveragerði og bárust tilkynningar um að hann hefði fundist vel í Hveragerði.

Suðurland

Rúmlega 60 skjálftar voru staðsettir á Suðurlandi í vikunni, flestir skjálftarnir eða um 30 talsins mældust umhverfis Hengilssvæðið, þar mældist einnig skjálfti af stærð 3.0 aðfaranótt 26. nóvembers um kl 2:30. Skjálftinn fannst í Hveragerði og bárust tilkynningar þess efnis inn í gegnum skráningarkerfi okkar á vefnum. Um 0.5 km sunnan við Brekkuskóg mældist skjálfti 2 að stærð þann 25. Þrír skjálfar mældust í Heklu í vikunni sá stærsti um 1 að stærð þann 22. um kl 9:30. En hinir tveir voru mun minni.

Reykjanesskagi

Tæplega 30 skjálftar mældust á Reykjanesskaga í vikunni og að auki mældust tveir skjálftar úti á Reykjaneshrygg. Tæplega 10 af þeim mældust við Reykjanestána á stærðarbilinu 1,2 til 1,9. En stærsti skjálfti á Reykjanesskaganum var á þeim slóðum. Tveir skjálftar af stærð 1, mældust suðvestan við Kleifarvatn en aðrir skjálftar voru minni.

Norðurland

Tæplega 20 smáskjálftar mældust inn á Norðurlandi í vikunni allir undir 1 að stærð. Það mældust tveir skjáftar við Kröflu, einn um 3 km austur af Reykjahlíð, um sex við Bæjarfjall við Þeistareyki og um 10 á Keldunesheiði. Tæplega 80 skjálftar mældust úti fyrir Norðurlandi. Um 30 þeirra mældust á Húsavíkur-Flateyjarmisgenginu, um 7 km NNV af Gjögurtá. Um 10 skjálftar mældust norðar í Eyjafjarðarálnum eða um 20 km norðan við Siglufjörð. Við Grímsey mældust um 10 smáskjálftar og í Öxarfirði mældust um 20. Einn skjálfti mældist úti á Kolbeinseyjarhrygg og var hann stærsti skjálftinn úti fyrir Norðurlandi í vikunni, um 2,6 að stærð.

Hálendið

Tæplega 120 skjálftar voru staðsettir á miðhálendinu í vikunni og tæplega helmingur þeirra við Bárðarbungu. Þar varð einnig stærsti skjálfti vikunnar, 3,8 að stærð, þann 26. kl. 06:32 í norðanverðri öskjunni. Rúmlega 10 skjálftar mældust við Öskju sá stærsti um 1,4 að stærð, austan við Öskjuvatn. Við Herðubreið og Herðubreiðartögl mældust um 50 skjálftar, allflestir undir 1 að stærð en þó fimm um einn að stærð og sá stæsti 1,3 að stærð mældist þann 21. kl 11:42 um 5 km VSV við Herðubreið. Einn skjálfti mældist í norðanverðum Geitlandsjökli, 1,1 að stærð.

Mýrdalsjökull

Tæplega 80 skjálftar mældust í og við Mýrdalsjökul í vikunni. Stærsti skjálftinn mældist 2,8 við austurbrún öskjunnar, þann 25. kl. 14:40. Í Eyjafjallajökli mældust tveir skjálftar sá stærri um 2 að stærð. Sex skjálftar mældust á Torfajökulssvæðinu í vikunni og voru þeir allir undir 1 að stærð.

Jarðvakt