| Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið |
Jarðskjálftar 20171016 - 20171022, vika 42

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér
Sérkort af
Lýsing á skjálftavirkni vikunnar
Um 870 jarðskjálftar voru staðsettir með SIL-mælakerfi Veðurstofunnar í liðinni viku. Enn á eftir að yfirfara fjölda skjálfta úr jarðskjálftahrinu sem hófst að kvöldi 20. október um sjö kílómetrum norðaustan við Selfoss. Stærsti skjálfti vikunnar var 4,1 að stærð. Hann varð kl. 21:51 þann 20. október og markaði upphafið að fyrrnefndri hrinu. Skjálftinn fannst víða á Suður-og Suðvesturlandi. Þann 18. október varð skjálfti af stærð 3,6 við Grímsey. Hann fannst í eynni. Þrír skjálftar mældust í Heklu og tveir í Eyjafjallajökli.
Suðurland
Um 370 skjálftar hafa verið staðsettir á Suðurlandi frá liðinni viku en enn á eftir að yfirfara fjölda skjálfta úr jarðskjálftahrinu sem varð norðaustan við Selfoss. Hún hófst að kvöldi 20. október. Fjölmargar tilkynningar bárust frá íbúum Selfoss og nágrennis um að skjálftar í hrinunni hafi fundist á svæðinu. Stærsti skjálfti hrinunnar var 4,1 að stærð og varð kl. 21:51 þann 20. október. Hann fannst á Selfossi og nágrenni, en einnig bárust tilkynningar um að skjálftinn hafi fundist á Hellu, Þorlákshöfn, Hveragerði og höfuðborgarsvæðinu. Flestir skjálftar hrinunnar eru nokkuð grunnir, eða ofan fimm kílómetra dýpis. Þeir eru á milli sprungna sem síðast hrukku 1784(b) og 1734 og virðist virknin ekki hafa færst norður-suður eins og venjan er, heldur frekar austur-vestur. Um 20 skjálftar mældust á Hengilssvæðinu og þrír skjálftar í Heklu.
Reykjanesskagi
Tæplega 50 skjálftar mældust á Reykjanesskaga í vikunni. Stærsti skjálftinn var 2,7 að stærð þann 22. október í nágrenni Krýsuvíkur. Mest var virknin í Fagradalsfjalli og á Krýsuvíkursvæðinu en nokkrir skjálftar mældust í Bláfjöllum og á Reykjaneshrygg.
Norðurland
Rúmlega 230 skjálftar mældust á Norðurlandi í liðinni viku. Stærsti skjálftinn var 3,6 að stærð kl. 6 að morgni 18. október við Grímsey. Hann fannst í eynni. Mesta virknin var á Grímseyjarbeltinu í liðinni viku en rúmlega 190 skjálftar mældust á beltinu, þar af voru um 100 við Grímsey. Tæplega 30 skjálftar mældust á Húsavíkur-Flateyjarmisgenginu, nokkrir við Þeistareyki og Kröflu.
Hálendið
Um 70 skjálftar mældust undir Vatnajökli í vikunni, þar af um 25 skjálftar í bergganginum undir Dyngjujökli. Rúmlega 20 skjálftar mældust í og við Bárðarbunguöskjuna. Sá stærsti var 2,9 að stærð þann 17. október. Nokkrir skjálftar mældust við Grímsvötn og um tugur í Öræfajökli. Einn skjálfti mældist í Kverkfjöllum. Norðan Vatnajökuls mældust rúmlega 100 skjálftar og var mesta virknin bundin við Dyngjufjöll og Herðubreið og Herðubreiðartögl.
Nokkrir skjálftar mældust á Torfajökulssvæðinu. Tæplega tugur skjálfta mældist við Jarlhettur, suðaustan við Langjökul.
Mýrdalsjökull
Um 15 skjálftar mældust í Mýrdalsjökli í liðinni viku. Flestir skjálftanna voru í Tungnakvíslarjökli. Allir skjálftarnir voru undir 2,0 að stærð. Tveir skjálftar mældust í Eyjafjallajökli.
Jarðvakt