Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20191230 - 20200105, vika 01

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Alls voru um 290 jarðskjálftar staðsettir með SIL-mælakerfi Veðurstofu Íslands í vikunni. Það er nokkuð færri en í síðustu viku þegar 360 jarðskjálftar mældust. Stærsti skjálfti vikunnar varð kl. 4:32 þann 5. janúar í norðvestanverðri Bárðarbunguöskjunni og mældist 4,8 að stærð. Skjálftinn er meðal stærstu skjálfta sem mælst hafa í Bárðarbungu síðan eldgosinu í Holuhrauni lauk í febrúar 2015. Einungis skjálfti af stærð 4,9 sem mældist í desember 2018 er stærri. Rúmum tuttugu mínútum á eftir þessum skjálfta mældist annar skjálfti af stærð 4,0 á sama stað sem var næst stærsti skjálfti vikunnar. Tæplega tugur minni eftirskjálfta fylgdu þessum skjálftum. Fyrripart 5. janúar mældust átta skjálftar skammt norðan við Geirfugladrang á Reykjaneshrygg. Stærstu skjálftarnir þar voru 3,2 og 3,1 að stærð. Að kvöldi 30. desember varð skjálfti af stærð 2,5 í sunnanverðum Grímsvötnum. Engir eftirskjálftar fylgdu þeim skjálfta. Þetta er stærsti skjálfti sem varð í Grímsvötnum á árinu 2019 ásamt tveimur öðrum skjálftum af sömu stærð sem urðu í janúar og maí. Alls mældust þrettán skjálftar í Grímsvötnum í síðustu viku, en meirihluti þeirra var minni en 1,0 að stærð.

Suðurland

Rúmlega 20 smáskjálftar mældust á Suðurlandsbrotabeltinu í vikunni, aðeins færri en í síðustu viku þegar þeir voru rúmlega 30. Skjálftarnir dreifðust nokkuð jafnt yfir svæðið, en þyrping fimm skjálfta var staðsett austarlega á brotabeltinu. Á Hengilssvæðinu mældust 36 skjálftar í vikunni, nokkuð fleiri en í síðustu viku þegar þeir voru ellefu. Stærsti skjálftinn varð við Hverahlíð og var 2,1 að stærð. Meirihluti skjálftanna á Hengilssvæðinu, eða tæplega 20, mældust þann 4. janúar og voru staðsettir við Nesjavallaveg skammt NA við Dyrafjöll. Allir skjálftarnir á því svæði voru minni en 1,5 að stærð. Einn smáskjálfti af stærð 0,8 mældist í Heklu í vikunni.

Reykjanesskagi

Rúmlega 40 skjálftar mældust á Reykjanesskaga í síðastliðinni viku en í vikunni þar áður voru þeir rúmlega 60. Stærsti skjálftinn á svæðinu var 1,8 að stærð staðsettur við sunnanvert Kleifarvatn. Fjórtán smáskjálftar mældust í kringum Fagradalsfjall en þar varð öflug skjálftahrina í þar síðustu viku. Einnig mældust þrettán smáskjálftar við Geitafell sunnan Bláfjalla. Tólf skjálftar mældust á Reykjaneshrygg, flestir þeirra urðu fyrripart 5. janúar skammt norðan við Geirfugladrang, tæplega 30km SV af Reykjanesi. Stærstu skjálftarnir þar voru 3,2 og 3,1 að stærð. Einnig var einn skjálfti af stærð 2,2 staðsettur á Reykjaneshrygg um 75km SV af Reykjanesi.

Norðurland

Úti fyrir Norðurlandi mældust rúmlega 40 jarðskjálftar, aðeins fleiri en í síðustu viku þegar þeir voru um 30. Meirihluti skjálftanna, um 30, raðaði sér á Grímseyjarbeltið. Af þeim var rúmlega tugur skjálfta staðsettur um 25 km SA af Grímsey þann 2. janúar. Allir skjálftar á Grímseyjarbeltinu í þessari viku voru undir 2,0 að stærð. Tíu skjálftar, allir undir 2,0 að stærð, voru staðsettir á Húsavíkur-Flateyjarmisgenginu í vikunni og tveir skjálftar af stærð 2,2 og 1,7 voru staðsettir í Eyjafjarðarál um 45 km N af Siglufirði. Sex litlir skjálftar mældust við Þeistareyki og fimm við Kröflu. Stakur smáskjálfti mældist við Gæsafjöll, V við Kröflu. Engir skjálftar mældust í nágrenni við Ásbyrgi í þessarri viku, en tæplega 80 skjálftar mældust þar í síðustu viku.

Hálendið

Rúmlega 60 jarðskjálftar mældust undir Vatnajökli í vikunni, sem er svipaður fjöldi samanborið við síðustu viku. Í Bárðarbunguöskjunni mældust 23 skjálftar, þar af tveir stærstu skjálftar vikunnar. Þeir voru 4,8 og 4,0 að stærð og urðu báðir snemma morguns 5. janúar með rúmlega 20 mínútna millibili, sá stærri á undan. Aðrir skjálftar í Bárðarbungu þessa vikuna voru minni en 2,0 að stærð. Einn djúpur smáskjálfti var staðsettur austan við Bárðarbunguöskjuna auk þess sem tveir smáskjálftar voru staðsettir í bergganginum sem liggur að Holuhrauni. Þrettán skjálftar voru mældir í Grímsvötnum, sá stærsti 2,5 að stærð sem varð að kvöldi 30. desember. Það er stærsti skjálfti ársins 2019 í Grímsvötnum ásamt tveimur öðrum jafnstórum sem urðu í janúar og maí. Allir aðrir skjálftar í Grímsvötnum þessa vikuna voru minni en 1,5. Sex skjálftar voru staðsettir í nágrenni Esjufjalla, sá stærsti 2,0 að stærð. Stakur skjálfti af stærð 1,3 var staðsettur við Þórðarhyrnu og tveir skjálftar af stærð 1,7 og 0,7 norðan við Skeiðarárjökul. Fimm skjálftar mældust í nágrenni Skaftárkatlanna, sá stærsti 1,7 að stærð. Fjórir litlir skjálftar voru staðsettir í Öræfajökli og einn í Svínafellsjökli. Tveir smáskjálftar mældust norðan við Kverkfjöll. Tæplega 50 jarðskjálftar mældust við Öskju og í nágrenni Herðubreiðar, allir undir 2,0 að stærð. Það er svipuð virkni og í síðustu viku. Einn lítill skjálfti varð í Geitlandsjökli í nágrenni við Prestahnúk og tveir skjálftar í Skjaldbreið.

Mýrdalsjökull

Sjö litlir skjálftar mældust á víð og dreif í Mýrdalsjökli, sem er svipuð virkni og í síðustu viku. Fjórir skjálftar voru staðsettir í Torfajökulsöskjunni sem er svipaður fjöldi og í síðustu viku. Stærsti skjálftinn þar var 2,1 að stærð.

Jarðvakt