Eðlisfræðisvið - Heklufréttir

Heimasíða

Goslok?

Óróahviða kom fram á skjálftamæli RH á Litlu Heklu í morgun klukkan 08:44. Síðan hefur ekkert mælst sem hægt er að kalla því nafni. Nema annað ótvírætt komi fram um þetta, er því ef til vill eðlilegt að telja að gosi í Heklu hafi lokið í morgun. Ekki er þó út frá þessu hægt að segja til um hvenær gosvirkni tekur sig upp aftur í Heklu.
8. mars 2000

Páll Einarsson

Heklufréttir 7. mars 2000.

Ármann Höskuldsson flaug yfir Heklu milli kl 17:00 og 18:00, mánudaginn 6. mars. Hann sá vel til gosstöðvanna en gat ekki séð að gos væri neins staðar í gangi. Það kemur heim og saman við að mjög lítill titringur sést á jarðskjálftamælinum í Haukadal, sem alla vega bendir til að mjög lítið gos sé í gangi. Það litla sem sést er slitrótt og hviðukennt. Þetta ber saman við mælinn á Litlu Heklu. Út frá frásögn Ármanns og annarra er hugsanlegt að gosið sé búið. Hviðurnar sem mælast benda til þess að einhverjar hreyfingar séu enn þá á hraunkviku þarna, sem afgasast í svona hviðum. Bráðið hraun gæti enn þá verið að renna fram undir storknuðu hrauni, þótt ekki sjáist til þess.
7. mars 2000

Ragnar Stefánsson

Heklufréttir 3. mars 2000.

Tilkynning frá flugvél kl. 11:15

Aukin virkni á síðustu klukkustund. Aska í 7500 feta hæð
3. mars 2000

Ragnar Stefánsson

Heklufréttir 2. mars 2000.

Flaug yfir Heklu í hádeginu í gær. Nyrðri hlutinn var hulinn skýjum þannig að þangað sást ekki og því erfitt að dæma um virkni þar, en þar mátti þó greina bólstravirkni aðallega gufa. Syðri hlutinn var mjög virkur og var virknin einkum hraunrennsli. Greina má á myndum sem teknar voru að gígar eru allt að 4 stórir og þrír smærri, þarna suður frá. Sá stærsti er efst rétt NE af axlargíg. Megin hraunrennslið rennur niður eftir skásprungunni sem myndaðist og gígarnir raða sér á. Mikill Túmúli (rishóll) hefur myndast neðst við sprunguna og streymir hraunið út undan honum. Mest rennsli sást í SV tungunni og voru greinlega tveir megin straumar sem mynda hana. Annar myndast vegna yfirfalls gíganna sem efstir eru, en hinn myndast af því rennsli sem kemur niður sprunguna og rennu út undan rishólnum. Hraunstraumurinn sem rennur suður af fjallinu hefur vaxið töluvert að ummáli síðan á mánudag. Nú er hann farinn að teygjast austur, þ.e. hann breikkar. Framgangur þessa straums hefur aftur á móti hægt mjög á sér og virðist sem hraunið sé ekki gengið fram um nema 50-100 m síðan á mánudag. Hraunstraumurinn virðist alinn af gígum um miðbik fjallsins eða rétt suður af toppgíg.
2. mars 2000

Ármann Höskuldsson

Hekla 2000 Norræna eldfjallastöðinn

Pistill frá Ara Trausta Guðmundssyni

Var fyrir austan í gær, bæði innan við Keldur og í kringum Selsund.Fylgdist vel með gosinu.Gjóskuframleiðsla var stöðug frá því ég kom ca. 16.30 og til ca. 18.10. Þá hvarf grái liturinn að mestu úr mekkinum og hann varð alhvítur í svo sem 40 mín. Svo bættist í hann gjóska smám saman að nýju.Þegar dimmdi sást vel að á upphaflegu, bognu gossprungunni í hlíðinnineðan við SV-hrygginn voru þrír gígar virkir með hraunslettum að hluta, einn efstur nokkuð hátt uppi (þaðan komu stærstu gjóskubólstrarnir fyrr um daginn), einn í miðið og með minnstum slettum og loks sá neðsti sem ekki gaus nema lítilháttar gjósku en þeim mun meiri hraunslettum. Úr honum rann hrauná, úr hinum náðum við ekki að sjá hraunrennsli enda innar í hlíðinni. Við fórum um 22.30 og hafði þá sprengivirknin ekkert breyst.
1. mars 2000

Ari Trausti Guðmundsson

Heklufréttir 29. febrúar 2000

Órói frá Heklu fór stöðugt lækkandi í allan gærdag og í nótt fram til upp úr kl. 05:00. Þá fór hann aftur vaxandi og náði aftur svipuðu stigi og upp úr hádegi í gær.

Guðrún Sverrisdóttir jarðfræðingur á Norrænu eldfjallastöðinni, sem var við hraunjaðarinn í morgun tilkynnti að í gærkvöldi og frameftir morgni hefði gosið á tveimur stöðum vestan og sunnan við Heklutind. Um kl. 08:00 hefði hins vegar hætt að gjósa úr gosopinu nær toppnum en eingöngu gosið úr opinu neðar.

Hugsanleg skýring á auknum óróa i morgun gæti verið að gosrásin sé að þrengjast og þannig verði meiri átök samfara minnkandi gosopi.

Gosið heldur semsagt áfram á svipuðum nótum. Á næstunni má einmitt búast við svona smáhviðum meðan gosrásin er smám saman að þrengjast.

Lítils háttar öskufall hefur verið tilkynnt í morgun úr Fljótshlíðinni og frá Markarfljótsaurum.

29. febrúar 2000


Ragnar Stefánsson
Páll Halldórsson
Steinunn Jakobsdóttir.

Óróamæling á Haukadal 10 km vestur af Heklu

Skýringar: Rautt er 0.5 - 1 Hz, blátt 1 - 2 Hz, brúnt 2 - 4Hz. Tímabilið 26. til 28. febrúar.

Myndin sýnir óróa á skjálftamælum í Haukadal. Við upphaf gossins um kl 18:17 þann 26. febrúar
jókst órórinn mjög hratt, en nær hámarki kl. 18:50. Eftir það fer að draga úr honum þar til kl. 07:00
þann 27. febrúar. Eftir það hefur hann verið stöðugur. Óróinn nú er u.þ.b. tíundi hluti þess sem hann
var mestur. Hann er hinsvegar rúmlega 10 sinnum meiri en venjulega þannig að gosið gerir enn vel
vart við sig.

27. febrúar 2000 kl. 18:30.

Páll Halldórsson


Óróamæling á Haukadal 10 km vestur af Heklu

Skýringar: Rautt er 0.5 - 1 Hz, blátt 1 - 2 Hz, brúnt 2 - 4Hz.

Óróamæling á Haukadal 10 km vestur af Heklu frá kl. 21:00, 2. mars til kl. 09:00, 6. mars.
Myndin sýnir sömu þróun í öðrum kvarða s.b.r. tölurnar á lóðrétta ásnum.

3. mars 2000

Páll Halldórsson

Óróamæling á Haukadal til kl. 15:00 2. mars 2000
18 tíma óróamæling á Haukadal 2. mars 2000
Óróamæling á Haukadal frá 1. mars kl. 00:00 til 3. mars kl. 09:00

Þenslumælingar

Þenslumælar Jarðeðlissviðs Veðurstofu Íslands sýna miklar breytingar vegna gossins í Heklu þann 26. febrúar 2000. Þessir mælar nema rúmmálsbreytingu sem verður í berginu sem þeir eru í, en þeir eru steyptir í borholur. Á korti 1 sjást staðsetningar mælanna. Mælarnir hafa verið reknir frá 1979 í samvinnu við Carnegiestofnunina í Washington.

Mynd 1 sýnir mælingarnar frá 26. febrúar til 1. mars Hluti ferlanna er sýndur nánar á mynd 2. Mælirinn í Búfelli sýnir stöðuga samþjöppun í berginu við mælinn frá því kl. 17:45 fram til kl. 19:20. Á sama tíma sýna aðrir mælar þenslu eða rúmmálsaukningu bergsins í næsta nágrenni sínu.

Mynd 3 sýnir hraða breytinganna (halli ferlanna á myndum 1 og 2 ) á mælunum í Búrfelli og Skálholti. Á Búrfellsmælinum má sjá að samþjöppunarhraðinn vex ört fram til kl. 18:17, þá dregur úr honum og upp úr kl. 19:20 sjáum við þenslu (mynd 1). Talið er að þessi breyting í opnunarhraða tákni að gosrásin nái yfirborði eða að ,,sýnilegt'' gos hefjist kl. 18:17. Mælirinn í Skálholti sýnir óverulega breytingu. Hann er í 45 km fjarlægð en Búrfellsmælirinn er í 15 km fjarlægð frá Heklu.

Samkvæmt þenslumælingunum er því unnt að skilgreina þrjá fasa í gosinu á fyrsta sólarhring þess. Í fyrsta lagi þá er kvika að brjóta sér leið til yfirborðs frá því um kl. 17:45 til kl. 18:17. Í öðru lagi þá heldur gosrásin áfam að víkka, eftir að gos er hafið, fram til kl. 19:20, en mun hægar. Og loks, eftir að gosrásin er að fullu mynduð, verður þensla (rúmmálsaukning) við alla mæla þegar hraun streymir úr kvikuhólfi undir fjallinu. Í fyrsta og öðrum fasa er einnig einhver tæming, en opnunin hefur yfirgnæfandi áhrif. Ástæða þess að stefna breytinganna (pólun) er mismunandi á stöðvunum í fyrsta og öðrum fasa er að gosrásin er um það bil 7 km langur gangur. Í stefnu þvert á ganginn, þar sem Búrfell er, verður samþjöppun. Á breiðum geirum í stefnu gangsins út frá endum hans verður hins vegar þensla. Allar aðrar stöðvar eru á þeim svæðum og af þeim er Geldingaá að norðanverðu.

Þetta líkist að flestu leyti gosinu í Heklu í janúar 1991 eins og það kom fram á þenslumælunum. Flýtirannsókn bendir að vísu til að merkið á Búrfelli sé talsvert minna núna, en ámóta eða ívið stærra á hinum stöðvunum. Skýring á því að hlutfall merkja á mismunandi stöðvum virðist annað núna liggur ekki fyrir. En örlítið önnur stefna eða staðsetning gossprungu í þessu gosi miðað við gosið 1991 gæti hugsanlega skýrt þennan mun. Rétt fyrir miðnætti þess 27. hættir þensla í Búrfelli og gæti það táknað að dregið hafi verulega úr hraunstreymi.

28. febrúar 2000

Kristján Ágústsson,

Flúor í Hekluösku frá 26. febrúar 2000.

Öskufall til norðurs var kannað og sýni af öskunni tekin til greininga vegna leysanlegs flúors á öskunni. Þess er að vænta, að magn flúors sé því hærra sem kornastærð öskunnar er fínni og yfirborð hlutfallslega stærra.

Sýnin sem notuð voru eru úr suðvesturjaðri öskugeirans við Sámsstaðamúla (No1) og úr suðvesturjaðri öskugeirans við Rangárbotna (No 18).

Þessi sýni eru valin þar eð þau eru fíngerðust af þeim sýnum, sem hægt er að safna í nánd fjallsins.

Sýni No 1 er með 920 mg leysanlegan flúor pr kíló af ösku (950 ppm) Sýni No 18 er með 810 mg leysanlegan flúor pr kíló af ösku (810 ppm)

ATH ! Eituráhrif fara einkum eftir styrk flúors í umhverfinu. Í fyrsta lagi er hér átt við regn eða snjó, sem fellur með öskunni og öskumengað yfirborðsvatn. Snjórinn, sem féll með öskusýnunum og bræddur var af þeim inniheldur um 2200 mg/l (ppm) af flúor.

ATH ! Norðanlands væru samsvarandi tölur líklega allt að tvöfalt hærri vegna fínni korna í öskunni. Þótt magn öskunnar sé lágt ætti að varast bræðsluvatnið.

Þessar tölur eru mjög áþekkar þeim frá 1970.


27. febrúar 2000

Níels Óskarsson
Freysteinn Sigmundsson

Gos í Heklu 26. febrúar 2000


Gos hófst í Heklu um kl. 18:17 þann 26. febrúar 2000, og skeikar aðeins 1 mínútu til eða frá um upphafstímann. Þessi tímasetning byggist á því hvenær þrýstilétting mælist í gosrás Heklu á þenslumæli sem er í borholu nálægt Búrfellsstöð, í 15 km fjarlægð frá Heklutindi. Þrýstilétting verður þegar skorpan opnast upp á yfirborðið vegna kvikuþrýstingsins. Fyrstu skjálftar eða smátitringur mældist kl. 17:07 á mælum Veðurstofunnar, eða n.t.t. á mæli í Haukadal skammt suðvestur af Heklu. Áður hafði mælst titringur á mæli sem Raunvísindastofnun Háskólans rekur á Litlu-Heklu, sem er í norðvesturhlíðum Heklu, eða n.t.t. upp úr kl. 16:50. Páll Einarsson á Raunvísindastofnun Háskólans var fyrir tilviljun staddur við síritann sem skráir hreyfingar þessa mælis og lét vita af því um kl. 17:20 að grunsamlegar hreyfingar væru með upptök í eða við Heklu sem gætu verið undanfari goss. Eftirlitsmenn á Þjónustusviði tóku eftir titringi í mælingum frá Haukadalsstöðinni um kl. 17:20. Skjálftar sem voru sæmilega vel staðsetjanlegir mældust kl. 17:30, kl. 17:45, kl. 18:17 og kl. 18:26. Þeir voru staðsettir einn til tvo km suðaustur af Heklutindi á nokkurra km dýpi. Dýpið er þó illa ákvarðað. Ég kom í Veðurstofuhúsið upp úr kl. 17:30 og hafði samband við Almannavarnir kl. 17:38 og tilkynnti að miklar líkur væri á að gos mundi hefjast innan skamms í Heklu. Í framhaldi af því hafði ég samband við Flugmálastjórn og benti á að miklar líkur væru á að gos væri að byrja, þar sem búast mætti við gosmekki sem næði upp í flughæð, n.t.t. 10 km hæð. Einnig hafði ég samband við veðurfræðing á vakt og svo við forstöðumann Þjónustusviðs Veðurstofunnar og benti þeim á hvað væri á seyði og hvatti þá til að reikna út fyrirfram líklegar leiðir gosmakkar og skrá myndir veðursjár Veðurstofunnar þéttar en venjulega. Áður hafði Páll Einarsson haft samband við Almannavarnir. Kl. 17:31 gaf sjálfvirkt viðvörunarkerfi Veðurstofunnar hæstu viðvörun fyrir Heklusvæðið. Kl. 17:47 tók þenslumælirinn að Búrfelli að sýna skýra breytingu, sem túlka mátti sem svo að kvika væri að þrýsta sér hratt upp efst í gosrás Heklu. Miðað við reynsluna af Heklugosinu 1991, þá mátti gera ráð fyrir að 20-30 mínútur mundu líða þar til gos hæfist. Var þá Almannavörnum, Flugmálastjórn og veðurfræðingum tilkynnt þetta. Í samræmi við þetta hófst gosið svo kl. 18:17. Fyrstu tilkynningar sjónarvotta komu á næstu mínútum. Veðursjá Veðurstofunnar sýndi engan gosmökk fram til kl. 18:20, enda þarf gos á þessum stað að vera komið upp í 2 km hæð til að það sjáist á veðursjánni. Á næstu veðursjármynd, frá 18:25, var gosmökkurinn svo kominn upp í a.m.k. 11 km hæð.

27. febrúar 2000

Ragnar Stefánsson

Efst á síðu