next up previous contents
Next: Gæðastuðull raunverulegra skjálfta og Up: ÚRVINNSLA Previous: ÚRVINNSLA

Fjöldi raunverulegra skjálfta og falskra

Ágætt mat á frammistöðu sjálfvirku úrvinnslunnar er hlutfall fjölda raunverulegra skjálfta og heildarfjölda atburða sem kerfið skráir. Hlutfall þetta er háð bæði dreifingu útstöðvanna og aðferðinni sem notuð er við að reikna gæði atburðanna. Því má búast við að allar breytingar á fjölda stöðva í netinu og breytingar á úrvinnsluhugbúnaði (anaaut) hafi áhrif á frammistöðu kerfisins. Sú útgáfa anaaut forritsins sem nú er í notkun var sett upp 17. júlí 1998. Til að athuga frammistöðu kerfisins og hæfnina til að greina að raunverulega skjálfta og uppspuna skoðaði ég því gögn frá 1. ágúst 1998 til 28. febrúar 1999. Undan voru skildir dagarnir 13.-15. nóvember 1998, en þá geysaði mikil skjálftahrina í Ölfusi RognvaldssonSkj/etal:1999 og er úrvinnslu hennar ekki að fullu lokið. Stöðvarnar í Svartárkoti og á Aðalbóli voru settar upp í ágúst 1998 og því er gagnasafnið ekki alveg einsleitt allt tímabilið sem skoðað var.

Skrárnar events.aut innihalda gjarna margar útgáfur af hverjum atburði. Þegar farið er yfir niðurstöður sjálfvirku úrvinnslunnar í lokimp, er reynt að skilja hismið frá korninu til að fækka þeim atburðum sem fara þarf yfir. Þetta er gert með því að skilja aðeins eftir eina færslu fyrir hvern færslulykil í events.aut. Þeirri færslu atburðarins sem hæst hefur gæðin er haldið eftir en skjálftungi er hlíft við hinum. Þetta er auðvitað ekki fullkomin hreinsun þar eð nokkuð algengt er að færslur sem í raun eru afbrigði af sama atburðinum hafi mismunandi færslulykla og sleppi því í gegnum þetta nálarauga. Því var libq forritið notað til að merkja allar færslur í events.aut sem áttu tvo eða fleiri fasa sameiginlega við einhvern skjálfta í events.lib. Sú færslan sem innihélt flesta sameiginlega fasa og hafði hæst gæðin var talin samsvara skjálftanum, en hinar voru skilgreindar sem lélegri útgáfur af honum og ekki teknar með í tölfræðilegu samantektinni. Þessi aðferð gefur þó líklega betri mynd af frammistöðu kerfisins en það á skilið. Við venjulega yfirferð gagnanna þarf að skoða allar þær útgáfur atburðanna sem hér voru fjarlægðar með þessu móti. Hér er þó vandrataður meðalvegurinn og erfitt að finna almenna og óyggjandi skilgreiningu á því hvað er nýr atburður og hvað ný útgáfa af atburði sem fyrir er.

Athuguð voru átta svæði og gerð úttekt á færni kerfisins á hverju þeirra, auk landsins alls. Mörk svæðanna eru sýnd á mynd 2.

  
Figure 2: Svæðaskiptingin sem notuð var við athugun á frammistöðu SIL kerfisins. Hengilssvæðið er merkt með H á myndinni og Mýrdalsjökull með M. Auk svæðanna átta á myndinni var heildargagnasafnið athugað. Fylltir rauðir hringir sýna staðsetningu heimatilbúinna jarðskjálfta á tímabilinu 1.8.1998-28.2.1999, alls um 1200 skjálfta. Nokkrir þeirra eru utan svæðisins á myndinni, á Reykjaneshrygg og Kolbeinseyjarhrygg.
[bb=48 54 590 437,width=]/heim/sr/sil/stat/gmt/svaedi.ps

Þegar borin voru saman gögn úr sjálfvirku úrvinnslunni og þeirri gagnvirku voru aðeins notaðir atburðir sem lentu innan sama svæðisins bæði í events.aut og events.lib. Niðurstöðurnar eru teknar saman í töflu 1. Á Reykjanesi og í Hengli eru raunverulegir jarðskjálftar og sprengingar drjúgur helmingur allra atburða sem kerfið skráir (dálkur 6 í töflu 1). Í brotabelti Suðurlands, Tjörnesbrotabeltinu og í heildargagnasafninu eru raunverulegir skjálftar aðeins um þriðjungur þeirra gagna sem kerfið safnar. Megnið af atburðum sem kerfið staðsetur á svæðum þar sem skjálftavirkni er lítil, en tiltölulega stutt í virk svæði, er rusl. Ástæðan er sú að á virku svæðunum er styst á milli útstöðva og því fremur auðvelt að púsla saman nokkrum fösum þannig að komutímar þeirra og sveifluvíddir falli að jarðskjálftalíkani. Það er hins vegar allt eins líklegt að staðsetning atburðar sem þannig er búinn til sé utan hefðbundinna upptakasvæða jarðskjálfta.
 
Table 1: Fjölda raunverulegra skjálfta og falskra á nokkrum svæðum á tímabilinu 1. ágúst 1998 til 28. febrúar 1999. Í öðrum dálki er heildarfjöldi skjálfta í events.lib, í þriðja dálki er fjöldi ,,heimatilbúinna'' skjálfta í events.lib, í fjórða dálki er fjöldi skjálfta í events.aut eftir að búið er að fjarlægja margfalda atburði og í fimmta dálki er fjöldi falskra skjálfta í events.aut. Mörk svæðanna eru sýnd á mynd 2.
Svæði Fjöldi í lib Fjöldi í aut Hlutföll
  alls (Nr) heimat. (Nh) alls (Na) falskir (Nf) Nr/Na Nr/Nf
Ísland 11514 1211 31515 21212 0.37 0.54
Tjörnes 1077 112 3868 2903 0.28 0.37
Faxaflói 519 53 6713 6559 0.08 0.08
Reykjanes 2285 359 3550 1624 0.64 1.39
Hengill 6294 732 7404 1842 0.85 3.42
Suðurland 757 66 2021 1330 0.37 0.57
Hálendið 58 8 1341 1291 0.04 0.04
Vatnajökull 71 60 876 865 0.08 0.08
Mýrdalsjökull 145 64 953 872 0.15 0.17
 

Um 10% allra skjálfta sem kerfið skráir eru skilgreind sem heimatilbúin, þ.e. ekki fannst nein samsvörun þessara skjálfta og atburða í events.aut með þeim aðferðum sem áður er lýst. Í Vatnajökli og Mýrdalsjökli er þetta hlutfall mun hærra, um 85% í Vatnajökli og 44% í Mýrdalsjökli.
next up previous contents
Next: Gæðastuðull raunverulegra skjálfta og Up: ÚRVINNSLA Previous: ÚRVINNSLA
Sigurdur Th. Rognvaldsson
1999-03-30